Print Friendly

Tómatplantan er skyld  papriku, eggaldini, kartöflu og ótrúlegt en satt - tóbaksplöntunni. Tómatar eru fullir af lýkópeni sem getur minnkað líkurnar á hjartasjúkdómum og meltingarkerfiskrabbameinum. Sýnt hefur verið fram á að lýkópenið nýtist líkamanum best ef tómatarnir eru borðaðir með smá fitu eins og t.d. ólífuolíu og lýkópenið eykst ef tómatarnir eru eldaðir.
Þessi súpa er því bráðholl fyrir utan að vera bæði einföld og ódýr.
Í stað rjóma má nota í hana súrmjólk eða hreina jógúrt.

 

Tómatsúpa fyrir 4

 • 2 laukar
 • 2 gulrætur
 • 2 sellerístönglar
 • 2 hvítlauksrif, marin
 • 2 msk ólífuolía
 • smávegis bacon ef til er
 • 2 dósir niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • 400ml soð (grænmetis eða kjúklinga)
 • 4msk rjómi
 • salt, pipar, chiliduft, paprika
 • lúkufylli af ferskri basilikku
 • 2 harðsoðin egg

Undirbúningstími: 10 mínútur

Eldunartími: 15 mínútur

 

Laukur, gulrætur, sellerí eru söxuð smátt og sett í pott með ólífuolíunni. Hvítlauksrifin eru marin og sett saman við.
Ef til er smá bacon er gott að setja um 2-3msk af því í litlum bitum út í með grænmetinu. Það er líka hægt að nota Chorizo pylsu eða einhverja góða kryddpylsu í staðinn. Þetta er látið svitna vel í olíunni þar til fer að verða gullið.

Þá er niðursoðnu tómötunum og soðinu hellt út í og þetta soðið á meðalhita í 15 mínútur.
Nú má smakka þetta til með smá salti og pipar og þurrkuðum chili, etv. örlítilli papriku eða cayenne pipar.

Þá er töfrasprotinn tekinn fram og þetta allt maukað saman, það má líka nota matvinnsluvél eða blandara, bara passa að setja ekki of mikið í einu og muna að þetta er sjóðandi heitt og auðvelt að brenna sig.
Þegar er búið að mauka saman þá er rjómanum blandað saman við og rifinni basilikku og hitað örsnöggt.

Borið fram með 1/2 harðsoðnu eggi í hverri skál og smá basilikku, það má líka setja brauðteninga eða fínsaxaðan rauðlauk yfir, eitthvað gott og litfagurt krydd eða ferska kryddjurt til skrauts.

 

Það er engin lykt af tómötum, lyktin sem við tengjum við tómata og gróðurhús kemur af græna stilknum en ekki tómatinum. Ef þú kaupir tómata og smá stilkur fylgir með skaltu skola stilkinn og bæta honum út í súpu/sósu/pottrétt rátt áður en þú berð réttinn fram. Stilkurinn gefur ótrúlega ferskt tómatabragð. Athugaðu að stilkurinn er mjög viðkvæmur fyrir hita og verður beiskur við of mikinn hita - því er best að setja hann út í réttinn þegar hann er kominn af eldavélinni og örlítið byrjaður að kólna.