Tómatakörfur með balsamsýrópi og basilikku
Print Friendly

Tómatakörfur með basilikku og balsamsýrópi fyrir 4

 • 1 pk filodeig (4-6 blöð)
 • 2 msk smjör
 • 1 tsk ólífuolía
 • 4 skallottulaukar, fínt sneiddir
 • 1 dl balsam edik
 • 1 msk púðursykur
 • 250 gr kokteiltómatar eða kirsuberjatómatar, í 4 bitum hver
 • handfylli fersk basilikka, fínsöxuð
 • 2 hvítlauksrif, rifin eða marin
 • 2 msk góð ólífuolía til að hella yfir
 • 1-2 msk rifinn parmesan ostur

Undirbúningur: 15 mínútur
Eldunartími: 20 mínútur

Hitaðu ofninn í 180°C.

Settu smjör og ólífuolíu í pönnu og settu skallottulaukinn út í, steiktu við vægan hita þar til fer að brúnast. Hrærðu reglulega og passaðu að brenni ekki.
Á meðan laukurinn brúnast útbýrðu sýrópið; helltu balsam ediki út í pott ásamt púðursykri og láttu sjóða vel þar til hefur soðið niður í 3msk magn.

Taktu tómatana og skerðu í báta, settu í skál ásamt saxaðri basilikku og rifnum hvítlauksrifjunum. Mér finnst best að nota mjög fínt rifjárn, en þú getur líka kramið rifin eða fínsaxað þau. Settu ólífuolíuna og salt og pipar út í og hrærðu vel.
Þegar sýrópið hefur soðið niður þá hellir þú því yfir tómatana og hrærir.

Taktu nú filodeigið og settu 1-1 1/2 blað í lítil form. Ég notaði stóra múffupönnu, þú getur notað stór möffins pappírsform eða hvað sem má fara inn í ofninn sem er á stærð við litla skál eða bolla ef þú átt ekki stóra múffupönnu. Taktu deigið og leggðu það óreglulega niður í formin/krumpaðu saman ofan í formin svo að myndi litlar körfur. 
Settu nú laukinn neðst í hverja körfu og svo tómatablönduna ofan á.
Settu örlítið af rifnum parmesan yfir hverja körfu og bakaðu í 180°C heitum ofni í um 15 mínútur eða þar til deigið er gullið og fallegt.

Berðu fram eina körfu á hverjum disk með örlitlu fersku salati.

tómatakörfur