IMG_6127-Edit
Print Friendly

Rauðrófur gefa dásamlega mýkt og raka í þessa köku og stífþeyttar eggjahvítur gera að verkum að hún er létt og ljúffeng. Soðnar rauðrófur er hægt að kaupa í lofttæmdum umbúðum í matvöruverslunum. Annars getur þú soðið rauðrófurnar og flysjað fyrir þessa uppskrift.

Súkkulaðikaka með rauðrófum

 • KÖKUDEIG
 • 2 plötur Siríus Konsúm
 • 5 msk rótsterkt kaffi
 • 180 gr smjör, í bitum
 • 125 gr hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 4 msk kakóduft
 • 4 eggjarauður
 • 5 eggjahvítur
 • 180gr hrásykur
 • 2 meðalstórar rauðrófur, soðnar
 • -
 • SMJÖRKREM
 • 200gr flórsykur
 • 100gr smjör, mjúkt
 • 1 msk rauðrófusafi
 • 1 tsk vanilludropar
 • 4-6 msk rjómi
 • -
 • SÚKKULAÐIKREM
 • 2 plötur Siríus Konsúm
 • 2 dl rjómi
 • 5 msk síróp (eða 3 msk agave)

Byrjaðu á að hita ofninn í 170°C.

Bræddu 2 plötur af súkkulaði yfir vatnsbaði. Þegar súkkulaðið er bráðið hrærirðu kaffinu, smjörinu og hrásykrinum saman við þar til allt blandast vel. Taktu af hitanum og láttu kólna örlítið á meðan þú vinnur með eggin.

Þeyttu eggjahvíturnar þar til stífar.

Þeyttu eggjarauðurnar í annarri skál þar til þær verða ljósgular og freyða.

Maukaðu rauðrófurnar í matvinnsluvél eða mixer. Settu út í eggjarauðurnar og hrærðu vel saman. Bættu nú eggjarauðu og rauðrófublöndunni út í súkkulaðiblönduna. Hrærðu vel.

Settu þurrefnin (hveiti, lyftiduft, kakó) saman við og hrærðu vel saman svo verði mjúkt og kekkjalaust. Bættu að lokum stífþeyttum eggjahvítunum saman við, blandaðu varlega saman.

Helltu í tvö smurð 20-22cm springform og bakaðu í 30 mínútur.

 

Láttu kólna vel áður en þú setur smjörkremið á milli.
Til að útbúa smjörkremið þarf smjörið að vera alveg mjúkt. Hrærðu saman flórsykrinum og smjörinu, bættu rauðrófusafa út í til að fá fallegan lit, ásamt vanilludropunum. Notaðu rjómann til að ná þeirri þykkt á kremið sem þú vilt.

Settu smjörkremið á milli botnanna.

Bræddu í vatnsbaði súkkulaðið, rjómann og sýrópið. Helltu yfir kökuna.

Njóttu!