IMG_1569
Print Friendly

Þessi súpa er sumarsúpa í mínum huga, einhverjir þekkja hana sem laxasúpu eða lúðusúpu og hver fjölskylda virðist hafa sína útgáfu af henni.

Hér er sú uppskrift sem ég vandist frá henni ömmu minni.

Silungasúpa fyrir 4

 • 2ja punda bleikja
 • 1L vatn
 • 2 lárviðarlauf
 • 2 tsk salt
 • 8 steinlausar sveskjur
 • 1 dl vatn
 • 2 msk sykur
 • 1 msk edik
 • salt og sykur
 • -
 • soðnar kartöflur

Undirbúningur: 5 mínútur

Eldunartími: 15 mínútur

Byrjaðu á að skera bleikjuna í sneiðar, um 3-4 cm þverskorið er hæfilegt. Raðaðu í pott og settu vatnið út í, miðaðu við að vatnið fljóti rétt yfir fiskinn. Settu salt út í og lárviðarlauf og láttu sjóða í 8-10 mínútur, eða þar til fiskurinn er soðinn.

Á meðan seturðu sveskjurnar heilar út í lítinn pott með smá vatni og sykri og lætur sjóða á meðan að fiskurinn sýður.

Taktu fiskinn úr soðinu og færðu upp á disk. Síaðu soðið og settu í pott, bættu ediki eða sítrónusafa út í, sveskjunum og vatninu af þeim, smakkaðu til með salti og sykri.

Þykktu soðið með hveitijafningi; settu 2 msk af hveiti í glerkrukku og hálffylltu krukkuna með vatni, settu lokið á og hristu eins og kokteilbarþjónn! Þannig færðu kekkjalausan jafning. Helltu út í súpuna á meðan hún sýður og hrærðu vel á meðan.

Súpan er sett í skálar, hver og einn verkar svo fisk og kartöflur ofan í sína skál.

Njótið!