Print Friendly, PDF & Email

Frábær og fljótlegur kvöldmatur, tilvalið þegar þarf að taka til í ísskápnum því í þetta getur þú notað flestallt grænmeti. Þú getur notað hvaða grænmeti sem er, en nauðsynlegt er að nota chili, engifer og hvítlauk.

Galdurinn hér er að gera allt saman tilbúið áður en þú ferð að steikja. Þegar þú skerð grænmetið reyndu að skera mismunandi form, „eldspýtur“, sneiðar, kringlótta bita, kassalaga bita; það er sem er svo skemmtilegt við að borða þennan rétt eru litirnir og formin og allt þetta bragð sem kemst fyrir í einni skál. Þegar þú ert tilbúin/n með hráefnið þá skellirðu Wok pönnunni á hæsta hita og 3-4 msk olíu í. Þegar fer að rjúka úr olíunni þá er hægt að fara að steikja. Það gerist allt frekar hratt, þú bætir hráefninu í pönnuna á 10-20 sek fresti, þannig að eldunartíminn er í mesta lagi 5 mínútur.

Rækjunúðlur fyrir 4

 • 250gr núðlur
 • 1 rautt chili, fræhreinsað og saxað
 • 3cm engiferrót, skorin í strimla
 • 1 sítrónugras, skorið í stóra bita
 • 4 hvítlauksrif, í sneiðum
 • 2 gulrætur, í „eldspýtum“
 • 1 græn paprika, í teningum
 • 1 rauð paprika, í teningum
 • 4 skallottulaukar, skornir í fernt
 • 300gr risarækja
 • 4 msk sæt chilisósa
 • 3 msk sojasósa
 • 1 tsk hunang
 • 3-4 msk olía

Undirbúningur: 15 mínútur

Eldunartími: 5 mínútur

Byrjaðu á að sjóða núðlurnar í saltvatni skv leiðbeiningum á pakkanum (oftast 3-4 mínútur). Skerðu, chili, engifer, sítrónugras og hvítlauk og settu í skál.

Skerðu nú allt grænmetið og settu í skálar.

Skelflettu rækjuna ef þarf.

Hrærðu saman í skál chilisósu, sojasósu og hunangi.

Skolaðu núðlurnar þegar þær eru tilbúnar og láttu renna vel af þeim.

Nú geturðu byrjað að steikja.

Settu 3-4 msk olíu í pönnuna á háan hita, ef þú átt ekki Wok þá þarftu að nota stærstu pönnu sem þú átt.

Þegar byrjar að rjúka úr olíunni þá skellirðu chili, engifer, hvítlauk og sítrónugrasi út í og steikir í 10 sekúndur, hrærðu stanslaust í á meðan. Hentu nú rækjunum út í og steiktu þar til þær verða bleikar, í 1-2 mínútur.

Þegar rækjurnar eru tilbúnar þá tekurðu þær ásamt öllu sem í pönnunni er og setur í skál. Geymdu til hliðar, þetta fer aftur út í pönnuna síðast.

Steiktu nú grænmetið;
fyrst það sem er harðast - t.d. gulrætur- í um 30 sekúndur. Hrærðu allan tímann.
Þar næst bætirðu við lauk, þú getur líka sett hvítkál á þessu stigi. Hrærðu vel og steiktu í 15-20 sekúndur. Settu núna afganginn af grænmetinu út í og steiktu í 15 sekúndur og hrærðu allan tímann.
Bættu nú núðlunum við, helltu sojasósublöndunni yfir og öllu úr skálinni með rækjunum. Hrærðu vel og steiktu í 1 mínútu, eða þar til allt hefur blandast vel saman.

Berðu fram með fersku kóríander, smá sesamfræjum og auka sósu í skálum til að hver og einn geti bragðbætt eftir eigin smekk; sætri chilisósu, sriracha sósu, soja sósu, hoi sin sósu, ostrusósu

- bara því sem þér þykir best.