Þetta brauð er frábært eins og það stendur og líka sem grunnuppskrift til að bæta þurrkuðum ávöxtum út í. Mér finnst rosalega gott að bæta grófskornum gráfíkjum út í brauðið, það er líka hægt að setja apríkósur og döðlur í það. Sætt bragð þurrkaðra ávaxta fer einstaklega vel með mjúku brauðinu og sterkum svörtum pipar.
Athugaðu að þú verður að nota nýmalaðan svartan pipar í þetta brauð, alls ekki fínmalaðan svartan pipar. Ef þú átt hvorki kvörn né mortél þá geturðu prófað að setja þau í viskustykki, útbúa poka úr því og berja það vel með hamri. Það má líka setja piparkornin heil út í deigið fyrir þá sem finnst gaman að bíta í sterk piparkorn.
Því lengur sem þú hnoðar deigið því betra. Gefðu þér góðan tíma í að hnoða, toga og teygja, a.m.k. 10 mínútur.
Brauð með svörtum pipar
- 650 gr hveiti
- 1 msk svört piparkorn, möluð
- 2 msk sjávarsalt
- 8gr þurrger
- 2 msk ólífuolía
- 450 ml volgt vatn
Undirbúningstími: 90 mínútur
Baksturstími: 45 mínútur
Blandaðu saman hveiti, pipar, salti og geri í stóra skál. Hrærðu ólífuolíunni og vatninu saman við svo úr verði mjúkt deig. Taktu úr skálinni og hnoðaðu í 10-15 mínútur. Þú gætir þurft að bæta hveiti við, eða strá yfir borð og deig þegar þú hnoðar til að byrja með.
Settu deigið í stóra skál og settu viskustykki yfir. Láttu hefast þar til tvöfalt að stærð, í um 45 mínútur. Kýldu deigið niður og hitaðu ofninn í 220°C (ekki blástur).
Ef þú vilt setja þurrkaða ávexti í brauðið þá hnoðarðu þá saman við deigið núna.
Hnoðaðu deigið ekki of mikið, mótaðu úr því stóran brauðhleif og settu á bökunarplötu. Stráðu smá hveiti yfir og skerðu á ská yfir brauðið með hníf. Þú getur stráð kryddjurtum yfir brauðið, ég stráði um 1 tsk af þurrkuðu timian yfir brauðið sem er hér á myndinni.
Láttu hefast aftur í um 15 mínútur.
Settu brauðið inn í ofninn og lækkaðu hitann í 200°C (ekki blástur).
Bakaðu í 40-45 mínútur eða þar til tilbúið. Láttu kólna á bökunargrind.[/two_third_last]
: