IMG_3182
Print Friendly

Þessar bollur eru fljótlegar og góðar. Frábærar með súpu eða til að kippa með í nesti.

Þú þarft að baka bollurnar í möffinspönnu, eplaskífupönnu eða litlum eldföstum mótum, t.d. frauðmótum.

Ostabollur

  • 2 msk olía
  • 2 egg
  • 125gr hveiti
  • 250 ml mjólk
  • 70gr ostur, rifinn
  • 1/2 grænt chili, fræhreinsað og fínsaxað
  • salt og nýmalaður svartur pipar

Undirbúningur: 10 mínútur

Bökunartími: 30 mínútur

Hitaðu ofninn í 180°C.

Settu olíu í möffinspönnuna, rúmlega hálfa teskeið í hverja holu (eða í hvert mót fyrir sig).

Settu mótið í ofninn í 5-10 mínútur. Á meðan útbýrðu deigið.

Sláðu saman eggjum í stórri skál, bættu þar næst við hveitinu og mjólkinni. Blandaðu vel saman. Settu smá salt og pipar út í og blandaðu vel.
Fræhreinsaðu og fínsaxaðu chilliið og settu í deigið og bættu þar næst við rifna ostinum.

Þegar olían í formunum er orðin vel heit, eða eftir 5-10 mínútur, þá tekurðu formin varlega út úr ofninum og hellir deigi í. Það er ágætt að miða við að hafa hverja holu rúmlega hálfa.
Settu í ofninn og bakaðu í 30 mínútur. Líttu á bollurnar eftir um 25 mínútur.
Bollurnar falla örlítið þegar þú tekur þær úr hitanum, það er eðlilegt.

Losaðu bollurnar úr mótunum þegar þær fara að kólna.
Dásamlegar með súpu, í nesti, með smá skinku á milli í staðinn fyrir samlokubrauð og ost. Eða bara alveg eins þú vilt.