Warning: Cannot modify header information - headers already sent by (output started at /home/allskonar/Sites/allskonar.is/allskonar/wp-content/themes/tasty/header.php:3) in /home/allskonar/Sites/allskonar.is/allskonar/wp-content/themes/tasty/header.php on line 11
allskonar.is | Osso Buco
Print Friendly

Osso buco eru sneiðar af kálfa- eða ungnautaskanka sem eru hægeldaðar með grænmeti og í vínsósu og er talið að rétturinn komi frá Mílanó upprunalega.

Uppskriftin er fyrir 2 en þú getur hæglega tvöfaldað innihaldsefnin til að hún henti fyrir 4.

Osso Buco fyrir 2

 • 2 sneiðar ungnautaskanki
 • salt
 • svartur pipar
 • 4 msk hveiti
 • 1 msk Dijon sinnep
 • 3+2 msk smjör
 • 3 skallottulaukar, fínsaxaðir
 • 2 gulrætur, fínsaxaðar
 • 8 hvítlauksrif, marin
 • 2 msk tómatpúrra
 • 1/2 rautt chili, frænhreinsað og fínsaxað
 • nokkur kúmenfræ
 • 230 ml rauðvín
 • 5 dl vatn
 • 1 teningur nautakjötkraftur
 • 1 tsk timian, þurrkað
 • 1 grein rósmarín

Undirbúningur: 30 mínútur

Eldunartími: 2 klst

Hitaðu ofninn í 180°C.

Taktu kjötið og þerraðu af því með eldhúspappír, þú þarft að binda það saman því annars dettur það alveg í sundur við hægeldunina. Það er ágætt að vefja sláturgarni 2-3svar utan um hvert stykki. Þú getur líka sleppt því að binda, kjötið verður alveg jafngott þrátt fyrir að það losni aðeins í sundur.

Nuddaðu salti og pipar inn í kjötið á báðum hliðum, smurðu Dijon sinnepinu þunnt á sneiðarnar og stráðu svo hveiti á báðar hliðar.

Settu 3 msk smjör í pönnu við meðal hita og steiktu kjötið í 4-5 mínútur á hvorri hlið þar til það er vel brúnað. Færðu í pott eða eldfast mót sem þú getur lokað.

Settu nú 2 msk af smjöri í pönnuna og steiktu skallottulaukinn og gulræturnar þar til fer að mýkjast, eða í um 5 mínútur. Bættu þá við hvítlauknum og chili-inu og steiktu í 1 mínútu. Hrærðu vel í á meðan. Næst seturðu tómatpúrruna, rauðvínið, vatnið og kjötkraftinn út í, lætur suðuna koma upp. Skrapaðu vel af botni og hliðum pönnunnar til að ná nú öllu góða bragðinu út í sósuna.
Helltu sósunni yfir kjötið í pottinum/mótinu, stráðu timian yfir og leggðu rósmarín greinina ofan á.
Settu lok á pottinn/mótið og inn í ofn. Steiktu í ofninum í 1 1/2-2 klukkustundir.

Frábært borið fram með kartöflumús og steiktu rósakáli, eða salati og gufusoðnu grænmeti. Við mælum með að drekka Jacob’s Creek Shiraz Cabernet með þessum rétti.