Print Friendly, PDF & Email

Það er svo hátíðlegt að borða ofnsteiktan fugl, hvort sem það er kjúklingur, önd eða gæs. Hér kemur uppskrift af rosalega góðri önd í ofni, þú getur útbúið einfalda appelsínusósu úr soðinu undan henni úr ofnskúffunni eða haft með þá sósu sem þér finnst best. Og meðlætið verður að vera það sem er í uppáhaldi í fjölskyldunni eða hefðbundið, hátíðarmáltíðin er svo oft tengd góðum minningum og stundum er meðlætið eða eldunaraðferðirnar eitthvað sem gengið hefur í arf á milli ættliða.

Ofnsteikt önd

 • 1 önd
 • 1 laukur skorinn í sneiðar
 • 1 skallottulaukur, saxaður
 • 1 msk þurrkaðar kryddjurtir að eigin vali
 • 3 hvítlauksrif, marin
 • 1 appelsína skorin í sneiðar
 • 3 dl vatn
 • 3 msk þurrt sherry(má sleppa)
 • 2 msk ólífuolía
 • 3 tsk salt
 • 1/2 tsk caeyenne pipar
 • 1/2 tsk cumin fræ
 • 1/2 tsk timian, þurrkað

 

Hitaðu ofninn í 220°C.

Settu í  litla skál salt, cayenne pipar, cuminfræ og timian. Leggðu til hliðar.

Skerðu laukinn í sneiðar og leggðu á botninn á eldföstu móti eða ofnpotti.

Skerðu appelsínuna í sneiðar og settu inn í fuglinn, blandaðu saman hvítlauknum, þurrkuðu kryddjurtunum og skallottulauknum og settu með appelsínusneiðunum inn í fuglinn.

Nuddaðu fuglinn að utan með olíunni og svo kryddblöndunni úr litlu skálinni.

Helltu nú 2dl af vatni í ofnpottinn og leggðu fuglinn með bringuna upp ofan á lauksneiðarnar. Steiktu í 40 mínútur í ofninum.
Lækkaðu nú hitann í ofninum niður í 170°C, snúðu fuglinum við þannig að bringan vísi niður og settu 1 dl af vatni ásamt 3 msk sherry í pottinn. Steiktu í 40 mínútur.

Snúðu öndinni einu sinni enn við, nú með bringuna upp og steiktu í 40 mínútur í viðbót, eða þar til kjötið hefur náð 85°C hita.

Nú er tilvalið að setja flysjaðar kartöflur í pottinn og steikja þær með fuglinum.

Þegar öndin er fullsteikt þá læturðu hana hvíla undir álpappír í 10 mínútur til að þú missir ekki úr henni safann þegar þú skerð hana.

Dásamleg með appelsínusósu eða soðsósu og alveg tilvalið að nota soðið úr ofnpottinum í sósugrunn.

Við mælum með því að drekka Tommasi Rafael Valpolicella með til að setja punktinn yfir i-ið.