Print Friendly, PDF & Email

Lungamjúkur nautavöðvi með dásamlegri kryddjurtasósu. Þú getur notað hvaða vöðva sem er þar sem marineringin virkilega mýkir kjötið. Í sósuna geturðu líka notað ferskan kóríander eða jafnvel basilikku.

Nautasteik með kryddjurtasósu fyrir 4

 • 800gr nautakjöt
 • MARINERING
 • 5 msk ólífuolía
 • 5 msk rauðvínsedik
 • 3 msk sojasósa
 • 2 msk hunang
 • 3 hvítlauksrif, marin
 • salt og pipar
 • 1 tsk cumin, malað
 • KRYDDJURTASÓSA
 • 1 pk steinselja
 • 1 msk cuminfræ
 • 1/2 grænt chili, fræhreinsað
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 dl ólífuolía
 • salt og pipar
 • -
 • Á KJÖTIÐ
 • nýmalaður svartur pipar
 • 3 msk smjör
 • 1 msk ólífuolía

Undirbúningur: 5 mínútur

Marinering: 2-4 klst

Eldunartími: 15 mínútur

Hvíld: 10 mínútur

Byrjaðu á að setja í skál allt sem á að fara í marineringuna. Skerðu smávegis í kjötið, um 3mm djúpa skurði, leggðu í marineringuna og nuddaðu henni vel inn í kjötið. Settu skálina í plastpoka og láttu marinerast í 2-4 klst, því lengur sem kjötið marinerast, því betra.

Gerðu nú kryddjurtasósuna. Settu allt sem í hana á að fara í matvinnsluvél og maukaðu saman. Láttu standa við stofuhita á meðan að kjötið marinerast til að bragðið nái að lagerast og verða fullkomið.

Þegar kemur að því að steikja kjötið þá tekurðu það úr marineringunni og þerrar með eldhúspappír. Kryddaðu það vel með nýmöluðum svörtum pipar.

Bræddu smjörið í pönnu og bættu olíu út í. Steiktu kjötið í um 5-6 mínútur á hvorri hlið við góðan hita.

Taktu kjötið af pönnunni, settu á bretti eða disk og settu tvöfalt lag af álpappír yfir og utan um það. Láttu hvíla í 10 mínútur til að þú missir engan safa úr því þegar kemur að því að skera það.

Skerðu kjötið á ská til að sneiðarnar verði stórar og góðar, dreifðu steinseljusósunni yfir.

Frábært borið fram með fersku salati, kartöflugratíni eða pönnusteiktum smáum kartöflum.

Við mælum með að drekka Tommasi Appassimento Graticcio með þessum rétti til að setja punktinn yfir i-ið.