Print Friendly, PDF & Email

Moussaka er hálfgert lasagna Grikkja, úr lamba- eða nautakjöti og eggaldinsneiðar notaðar í stað pasta. Mússakan er langt í frá megrunarfæði og fyllir alla maga á örskots stund.

Þú þarft dágóðan tíma til að elda Mússöku, það er ágætt að velja sér eitthvað til að hlusta á eða hafa félagsskap í eldhúsinu á meðan þú eldar. Þrátt fyrir langan tíma við að skera, steikja og elda þá er niðurstaðan svo ómótstæðileg að þú átt ekki eftir að sjá eftir einni mínútu af tíma sem fór í að búa til þennan rétt.

Moussaka fyrir 5-6

 • Eggaldinsneiðar
 • 3 eggaldin
 • sjávarsalt
 • ólífu olía
 • -
 • Kjötfyllingin
 • 2 msk smjör
 • 1 msk ólífu olía
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 3 hvítlauksrif, fínsöxuð
 • 500gr kjöthakk
 • 1.5 dl hvítvín
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 1/2 tsk kanill, malaður
 • 2 tsk oregano, þurrkað
 • 1 lárviðarlauf
 • sjávarsalt og svartur pipar
 • -
 • Hvít sósa
 • 4 msk smjör
 • 4 msk hveiti
 • 5 dl mjólk
 • 1/4 tsk múskat, malað
 • sjávarsalt og hvítur pipar
 • 200gr rifinn ostur

Undirbúningstími: 35 mínútur

Eldunartími: 75 mínútur

Þarf að standa í 20 mínútur

Taktu hvert eggaldin og skerðu í um 1cm þykkar sneiðar langsum. Stráðu salti yfir hverja sneið og settu í sigti. Láttu standa í 20 mínútur, þetta dregur út alla beiskju og vökva. Skolaðu með köldu vatni og þerraðu, þú getur meira að segja kreist sneiðarnar aðeins og reynt að ná meiri vökva út úr þeim - því minni vökvi, því betur steikjast þær.

Á meðan eggaldinin liggja í saltinu þá útbýrðu kjötfyllinguna.
Settu olíu og smjör í pott á meðal hita og steiktu lauk og hvítlauk þar til laukurinn fer að verða gullinn eða í um 5 mínútur. Bættu þá kjöthakkinu við og steiktu þar til hakkið brúnast í 7-10 mínútur. Bættu víninu út í, tómötunum, lárviðarlaufi og kanil. Láttu sjóða í 30 mínútur.

Hitaðu ofninn í 180°C.

Rífðu ostinn, þú þarft að hafa hann tilbúinn þegar þú útbýrð hvítu sósuna og það verður enginn tími til að rífa hann síðar. Þannig að rífðu hann núna.

Á meðan að kjötið sýður skolarðu og þerrar eggaldinsneiðarnar og steikir á pönnu. Þú þarft að steikja þær á báðum hliðum þar til þær verða mjúkar, eða um 3-5 mínútur á hvorri hlið. Láttu renna af þeim á eldhúspappír.

Þegar kjötið hefur mallað í 30 mínútur þá bætirðu oregano út í og smakkar til með salti og pipar.
Nú er kominn tími til að útbúa hvítu sósuna.
Settu smjör í pott og bræddu vel, bættu þar næst hveitinu út í og hrærðu vel. Helltu núna mjólkinni út í í smá skömmtum og þeyttu stanslaust þar til þú hefur sett alla mjólkina út í pottinn. Lækkaðu hitann undir pottinum og settu helminginn af rifna ostinum út í. Hrærðu vel. Smakkaðu nú til með salti, hvítum pipar og múskati.

Til að raða Moussökunni saman þá byrjarðu á að leggja eggaldin sneiðar í botninn á eldföstu móti, ofan á þær seturðu helminginn af kjötblöndunni. Þar næst annað lag af eggaldinsneiðum og ofan á það afganginn af kjötinu. Settu um helminginn eða 3/4 af hvítu sósunni yfir allt saman og settu rifna ostinn yfir.

Bakaðu í 180°C heitum ofni í 40-45 mínútur eða  þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn og farið að búbla vel meðfram hliðunum.

Taktu þá úr ofninum og láttu standa í 20 mínútur.

Berðu fram með afgangnum af hvítu sósunni og brakandi fersku salati með fullt af fetaosti og ólífum.

Hvernig vel ég gott eggaldin úti í búð?

Stórt er ekki endilega betra, stór eggaldin eru tínd seint, þau eru mjög þroskuð og því miklar líkur á því að þau séu beisk á bragðið. Reyndu að finna meðalstærðar eggaldin með fallegu hýði; ekki með mjúkum blettum eða brúnum skellum. Eggaldin á að vera stinnt en ekki hart viðkomu.