Morgunverðarpylsur

Birtist í Kjöt, Uppskriftir

Ég hef lengi ætlað mér að útbúa mínar eigin morgunverðarpylsur, en hef ekki komist yfir pylsuvél eða gerfigarnir til að setja pylsurnar í. Þannig að ég ákvað að prófa að gera fitulitlar svínapylsur án skinnsins og þetta varð niðurstaðan. Ég geymdi pylsurnar í pokum í frysti og steikti svo eftir þörfum.

Frábær morgunmatur fyrir dagana þar sem vantar orku sem þarf að endast!

 

Morgunverðarpylsur

  • 1 kg svínakjöt/svínahakk
  • 100gr brauðmylsna
  • 3 tsk salt
  • 1 tsk hvítur pipar
  • 1/2 tsk engifer, malaður
  • 3 tsk söxuð salvía (1 tsk ef þurrkuð)
  • 2 tsk timian (1/2 tsk ef þurrkuð)
  • 1/2 tsk allrahanda, malað

Ég notaði blandað svínakjöt og hakkaði það í matvinnsluvél. Þú getur líka notað tilbúið hakk beint utan úr búð. Því betra sem kjötið er, því betri eru pylsurnar. Ekki taka algert kast í að hreinsa fituna af kjötinu, hún þarf að vera með til að gefa bragð og halda pylsunum vel saman.

Ég bjó brauðmylsnuna til í matvinnsluvélinni úr 3 sneiðum af brauði sem var alveg við að syngja sitt síðasta. Ég á alltaf brauðenda og rúnstykkjaafganga í poka inni í frysti til að nota til að útbúa brauðmylsnu - mjög hentugt! Blandaðu nú kryddinu öllu vel saman við brauðmylsnuna.

Bættu nú hakkinu saman við. Ef þú hakkar kjötið sjálf/ur þá mæli ég með því að ganga ekki of langt, hafa hakkið fremur gróft frekar en fínt því þá vill það fara að líkjast farsi. Hnoðaðu nú öllu þessu vel saman, þetta tekur smá tíma, en er rosalega skemmtileg. Það getur verið gott að nota latex hanska ef þér finnst ónotalegt að krafla í hráu kjöti. Þú getur að sjálfsögðu  á þessu stigi bætt við deigið fínsöxuðum lauk og hvítlauk eða hverju því sem þér dettur í hug.

Taktu nú eldhúsfilmu og rífðu niður í búta, stærðin er ca eins og A4 blað. Taktu handfylli af kjötdeiginu og rúllaðu upp í litlar pylsur. Leggðu 2 pylsur á hvern eldhúsfilmubút og rúllaðu þéttingsfast inn í filmuna.

Snúðu vel upp á plastið til endanna og í miðjunni.

Settu vatn í stóran pott eða pönnu og láttu suðuna koma hressilega upp. Þegar vatnið sýður vel þá seturðu filmupylsurnar út í  og lætur sjóða í 3-4 mínútur. Þú þarft að gera þetta í nokkrum lotum, það er ekki gott að hafa of mikið í pottinum í einu. Taktu úr pottinum og láttu kólna.

Þegar pyslurnar hafa kólnað þá tekurðu þær úr plastinu. Nú getur þú fryst þær í pokum og sótt þegar þig vantar.

Þú steikir svo pylsurnar á pönnu í 3-4 mínútur svo þær brúnist vel að utan. Æðislegar með steiktum tómat með nýmöluðum pipar, spældu eggi og smá beikoni.