Mandarínukaka
Print Friendly

Í þessa köku geturðu notað appelsínur eða klementínur í staðinn fyrir mandarínur. Athugaðu að ef þú notar appelsínur þá máttu reikna með 1 appelsínu fyrir 2-3 mandarínur, eða 2 appelsínur í þessa uppskrift.

Mandarínukaka með heitri karamellusósu

 •  DEIG
 • 165 gr hveiti
 • 40 gr sykur
 • hnífsoddur salt
 • börkur af 1 mandarínu
 • 165 gr smjör, skorið í teninga
 • 1 eggjarauða (eggjahvítan fer í fyllinguna)
 • FYLLING
 • 100 gr möndlur
 • 50 gr sykur
 • 2 egg
 • 1 eggjahvíta (afgangur úr deiginu)
 • rifinn börkur af 3 mandarínum
 • safi úr 4 mandarínum
 • 70 gr Siríus Konsúm, saxað

Hitaðu ofninn í 180°C.
Smyrðu 24 cm bökuform að innan með smjöri.

Í matvinnsluvél blandarðu saman hveitinu, sykrinum, saltinu, mandarínuberkinum og smjörinu þar til fer að líta út eins og brauðmyslna. Þá seturðu eggjarauðuna út í og hnoðar þar til deigið fer í kúlu. Þú getur líka gert þetta í höndunum ef þú átt ekki matvinnsluvél; nuddar saman þurrefnunum og smjörinu og hnoðar svo eggjarauðunni út í.

Þrýstu deiginu í formið í botninn og upp hliðarnar, pikkaðu það vel með gaffli og bakaðu í 16-18 mínútur eða þar til gullið.

 

Á meðan útbýrðu fyllinguna.
Settu möndlurnar og sykur í matvinnsluvél (þú getur líka fínsaxað og malað möndlurnar í mortéli og hrært saman við sykurinn í skál). Láttu þeytast um í vélinni þar til möndlurnar verða að mjöli. Bættu þá við eggjunum, eggjahvítunni, mandarínusafanum og berkinum og blandaðu vel saman.

Þegar deigið hefur bakast nægilega tekurðu það út úr ofninum, hellir fyllingunni út í og stráir súkkulaðinu yfir.
Bakaðu í ofninum í 15-20 mínútur, eða þar til fyllingin er orðin stíf og gullin.
Berðu fram með heitri karamellusósu og ekki sakar að eiga smá vanilluís, þeyttan rjóma eða gríska jógúrt til að hafa með.

 

Karamellusósa

 • 4 msk smjör
 • 160 gr púðursykur
 • 2 msk hveiti
 • 1 dl vatn
 • 1 dl rjómi
 • 1 tsk sjávarsalt
 • fræ úr 1 vanillustöng

Láttu smjörið bráðna í góðum skaftpotti. Betra er að hafa pottinn stærri en minni þar sem að sykurinn þarf að sjóða og lyftist í pottinum.
Þegar smjörið er bráðið þá hrærirðu sykrinum og hveitinu saman við, láttu sjóða þar til áferðin verður eins og fljótandi hraun, hrærðu vel í á meðan.
Bættu nú vatninu hægt saman við og hrærðu vel, láttu sjóða í 2-3 mínútur. Bættu þá rjómanum saman við og hrærðu vel á meðan. Láttu malla hægt og rólega  og bættu sjávarsaltinu saman við og fræjunum úr vanillustönginni. Sjóddu í 2-3 mínútur í viðbót, lengur ef þú vilt hafa sósuna mjög þykka.

(geymist í ísskáp í 1 viku)

 

mandarínukaka með heitri karamellusósu