Print Friendly

Þessi uppskrift af hörpudisk er tilvalin fyrir fjóra í forrétt, en fyrir 2 sem aðalréttur.
Þú getur líka borið réttinn fram á salatbeði, með klettasalati eða blönduðu salati.
Smár hörpudiskur kostar töluvert minna en sá stóri, en þú getur að sjálfsögðu notað stóran hörpudisk í uppskriftina.
Fyrir utan að taka nærri enga stund að útbúa þá er þessi réttur ofboðslega góður og sómir sér vel sem forréttur fyrir flotta hátíðarmáltíð.

Hörpudiskur með heslihnetusmjöri fyrir 4

  • 400 gr hörpudiskur, smár
  • 20 heslihnetur, grófsaxaðar
  • 2 hvítlauksrif, marin
  • 4 msk smjör
  • 1 msk nýkreistur sítrónusafi
  • 6 blöð fersk basilikka, fínsöxuð
  • 15 gr steinselja, fínsöxuð
  • nýmalaður svartur pipar
  • smá salt

Undirbúningur: 5 mínútur

Eldunartími: 5 mínútur

Settu helminginn af smjörinu í pönnu á góðan hita. Steiktu hörpudiskinn í smjörinu í um 1 mínútu.
Settu hvítlaukinn út í  pönnuna og hneturnar og afganginn af smjörinu, steiktu í 1 mínútu til viðbótar.
Slökktu undir pönnunni og kreistu sítrónusafann yfir, 1 msk er um 1/4 af sítrónu.
Stráðu steinseljunni og basilikkunni yfir, hrærðu vel til að allt blandist vel saman og malaðu svartan pipar yfir.
Smakkaðu til með smá salti ef þér finnst þurfa.

Berðu fram á salatbeði eða í fallegum glösum.
Við mælum með að drekka kælt hvítvín eins og Concha y Toro Sunrise Chardonnay með þessum rétti.