IMG_2932-2
Print Friendly

Sashimi  er japönsk leið til að útbúa hráan fisk eða kjöt með því að skera kjötið afar þunnt. Reyndu að finna sem ferskastan fisk og ekki of feitan.

Í uppskriftinni er notað Shichimi sem er japanskt krydd, ef þú getur ekki fundið það þá mæli ég með að sleppa því alveg í uppskriftinni og ekki setja eitthvað annað í staðinn.

Ef þú getur ekki fundið Mirin þá geturðu notað í staðinn 2 tsk hrísgrjónaedik með 1 tsk sykri út í.

Þessi uppskrift er af sashimi salati sem þú getur haft bæði í forrétt eða aðalrétt.

Uppskriftin hentar fyrir 2 í aðalrétt en fyrir 4 sem forréttur.

Laxasashimi salat

 • 150 gr lax
 • 1/2 rauð paprika
 • 1/2 græn paprika
 • smá biti af gúrku
 • 1 vorlaukur
 • 1 lítið rautt chili
 • 1 msk mirin
 • 1 msk sojasósa
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1 tsk sesamolía
 • hnífsoddur shichimi (má sleppa)
 • sesam eða hörfræ til skreytingar

Undirbúningur: 10 mínútur

Samsetning: 5 mínútur

Skerðu laxabitann í 1cm sneiðar eða þynnri. Farðu varlega að því þar sem þú vilt að fiskurinn líti fallega út í salatinu.

Skerðu paprikurnar og gúrkubitann í mjög þunnar sneiðar. Skerðu því næst vorlaukinn á ská í þunnar sneiðar, fræhreinsaður chiliið og skerðu á ská í þunnar sneiðar.

Settu í stóra skál mirin, sojasósu, sítrónusafa og sesamolíu, hrærðu vel saman.

Láttu nú fiskinn og grænmetið út í kryddblönduna og blandaðu vel saman. Mér finnst best að gera það með höndunum til að skemma ekki þunnar sneiðarnar af laxinum.

Stráðu sesam eða hörfræjum yfir og örlitlu af shichimi, settu 2-3 sneiðar af vorlauk og 2-3 af chili ofan á hvern skammt af réttinum.

Við mælum með að drekka kælt Casillero del Diablo Chardonnay með þessum rétti.