Print Friendly, PDF & Email

Það er fljótlegt og einfalt að elda dýrindismáltíð úr því frábæra hráefni sem við eigum í íslenska lambakjötinu.

Hér nota ég lambakórónu. Þú getur skrapað beinin og sett álpappír utan um þau ef þú vilt halda þeim fallega hvítum, ég vil alltaf naga beinin eftir á þannig að mér finnst betra að leyfa þeim að steikjast með kjötinu.

Lambakóróna fyrir 4

  • 750gr lambakóróna
  • 15 möndlur
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 tsk cumin fræ
  • 1/2 tsk engifer, malaður
  • 1 tsk kóríanderfræ
  • 1/2 tsk turmerik
  • 1/4 tsk kanill
  • 1/2 tsk cayenne pipar
  • 1/2 tsk sumac(má sleppa)

Undirbúningur: 10 mínútur

Eldunartími: 25 mínútur

Hvíld: 10 mínútur

Byrjaðu á að hita ofninn í 180°C.

Settu allt innihaldsefnið, nema lambið, í mortél eða matvinnsluvél. Hakkaðu eða merðu örlítið til að möndlurnar fari í mola og kryddið blandist vel saman.

Nuddaðu nú kryddblöndunni vel á lambakjötið, reyndu að þekja það alveg.

Leggðu kjötið í eldfast mót og steiktu í ofninum í 20-25 mínútur, allt eftir því hvernig þú vilt hafa kjötið steikt. Ef þú vilt mjög steikt, s.s. ekkert bleikt, þá hefurðu kjötið í 30 mínútur í ofninum. Leyfðu kjötinu að sitja í álpappír þegar þú tekur það út úr ofninum, í 10 mínútur til að hvíla og vera viss um að þú tapir engum vökva úr því þegar þú skerð það.

Berðu fram með því meðlæti sem þig langar til. Ég valdi að bera það fram með gulrótarmús með smá appelsínuberki og fersku salati.

Við mælum með að drekka Frontera Shiraz með þessum rétti.