Krydduð rauðrófu og kókossúpa

Birtist í Súpa, Uppskriftir

Krydduð rauðrófu og kókossúpa f. 4

 • -
 • 400gr rauðrófur
 • -
 • Kryddmauk
 • 2 stilkar sítrónugras
 • 2 hvítlauksrif
 • 1-2 rauð chili
 • 4cm engifer, flysjaður
 • börkur af 1 lime
 • safi úr 1 lime
 • -
 • Súpan
 • 1 msk olía
 • 4 skallottulaukar, fínsaxaðir
 • salt
 • 1 tsk cuminfræ
 • 500ml grænmetissoð
 • 1 dós kókosmjólk
 • salt og pipar
 • -
 • Jurtajógúrt
 • 2 msk hrein jógúrt
 • 2 msk ferskar kryddjurtir (hvað sem þú átt til)
 • 5 cm gúrka, fínsöxuð
Undirbúningstími: 20 mínútur

Eldunartími: 60 mínútur

Byrjaðu á að flysja rauðrófurnar og sjóða í saltvatni, best er að skera hverja rauðrófu í 4 bita. Á meðan þær sjóða þá útbúum við kryddmaukið.

Blandaðu saman í matvinnsluvél, mixer eða mortéli; sítrónugrasi, hvítlauksrifjunum, chili, engifer, limeberki og limesafa og blandaðu þar til þetta er orðið að fíngerðu mauki. Settu til hliðar.

Til að útbúa súpuna þá hitarðu olíu í potti á meðalhita. Steiktu skallottulauk, salt og cuminfræ í nokkrar mínútur, eða þar til laukurinn er mjúkur. Bættu þá við kryddmaukinu sem þú bjóst til áðan, steiktu í 5 mínútur eða þar til allt fer að ilma vel.

Færðu nú rauðrófurnar á milli og yfir í pottinn með kryddinu, steiktu þær í 2 mínútur, rétt til að þekja þær í kryddi. Bættu nú við grænmetissoðinu og láttu suðuna koma upp. Þetta á að sjóða í  40-45 mínútur, eða þar til rauðrófurnar eru mjúkar.

Á meðan útbýrðu kryddjurtajógúrtina, blandaðu öllum hráefnunum  vel saman. Þú getur notað t.d. myntu, steinselju, kóríander eða saxað niður salat eða spínat og sett þá smá svartan pipar út í.

Þegar súpan er soðin þá maukarðu hana vel með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Það er líka hægt að mauka hana í gegnum sigti. Hrærðu nú kókosmjólkinni saman við, smakkaðu til með salti og pipar og hitaðu varlega.

Sett í skálar, skeið af kryddjurtajógúrti út í og borið fram með góðu brauði eða flatkökum.