Print Friendly

Það er einfalt og fljótlegt að útbúa kryddsmjör. Allt sem þú þarft er smjör og ímyndunaraflið.

Kryddsmjörinu er gott að rúlla upp í pylsu inn í bökunarpappír eða eldhúsfilmu, það geymist í rúmlega mánuð í frysti en 2 vikur í kæli.

Hér koma nokkrar tillögur að blöndum fyrir kryddsmjör

Kryddsmjör #1

 • 100gr smjör
 • lime
 • lúkufylli kóríander
 • 2.5 cm engiferrót

Rífðu engiferrótina í rifjárni yfir smjörið, taktu börkinn af lime ávextinum og kreistu safann úr helmingnum, saxaðu kóríanderinn og settu yfir.

Stappaðu vel saman, lime safinn gengur hægt inn og þetta þarf að stappa í smá tíma. Rúllaðu upp í pylsu inn í pappír.

Þetta smjör er æðislegt með fiski og sjávarréttum.

Kryddsmjör #2

 • 100gr smjör
 • 5 cm biti chorizo pylsa
 • lúkufylli steinselja
 • börkur af  1/2 sítrónu
 • 1/2 rautt chili

Fínsaxaðu chorizo pylsuna og steinseljuna og settu yfir smjörið, rífðu börkinn af 1/2 sítrónu yfir, fræhreinsaðu og fínsaxaðu 1/2 rautt chili.

Stappaðu vel saman og rúllaðu í pylsu inn í pappír.

Þetta smjör er  dásamlegt með kartöfluréttum eða eggjaköku.

 

Kryddsmjör #3

 • 100gr smjör
 • 1 tsk cuminfræ
 • 1 tsk sinnepsfræ
 • 1/2 rautt chili
 • 3 hvítlauksrif
 • börkur af 1/2 sítrónu
 • 1 vorlaukur

Þurr-ristaðu á pönnu bæði cuminfræ og sinnepsfræ þar til þau fara að ilma, settu þá yfir smjörið.

Fræhreinsaðu og fínsaxaðu 1/2 rautt chili, merðu eða fínsaxaðu 3 hvítlauksrif, rífðu börk af 1/2 sítrónu yfir og saxaðu 1 vorlauk.

Stappaðu vel saman og rúllaðu í pylsu inn í pappír.

Frábært með kjöti eða núðlum.

Kryddsmjör #4

 • 100gr smjör
 • lúkufylli steinselja
 • börkur af 1 appelsínu
 • safi úr 1/2 appelsínu
 • 1 msk rósapipar, heill

Saxaðu steinseljuna og settu yfir smjörið, rífðu börkinn af appelsínunni og kreistu safann úr hálfri.

Settu rósapipar saman við og stappaðu vel. Rúllaðu í pylsu innan í pappír.

Þetta smjör er mjög ferskt og gott og hentar vel með fiski eða lambakjöti.