Print Friendly

Þessi súpa ætti eiginlega að heita Tekið-til-í-ísskáp-og-frysti-og-búri þar sem að í hana getur farið hvað sem er. Eina sem við þurfum að eiga er kókosmjólk og grænt chilimauk, afgangurinn er það sem hendi er næst, allskyns grænmeti, fiskur eða sjávarréttir, núðlur, hrísgrjón og baunir.

En til að hafa uppskrift til að gefa ykkur innblástur í tiltektarspuna í ísskápnum þá kemur hér listi yfir hvað ég setti í súpuna síðast þegar ég eldaði hana í matinn.

Kókossúpa fyrir 4

 • 250 gr risarækja
 • 10-12 sveppir
 • 1 laukur
 • 4 kartöflur
 • 2 gulrætur
 • 1/2  paprika
 • hvítkál
 • salatblöð
 • 4 msk grænt chilimauk
 • 1 plata eggjanúðlur
 • 1 dós kókosmjólk
 • 450ml grænmetissoð

Undirbúningur: 10 mínútur

Eldunartími: 15 mínútur

Byrjaðu á að skelhreinsa risarækjuna, geymdu skelina því hana er frábært að eiga í frysti og nota í bisque súpur eða jafnvel út í soð og sósur.

Sneiddu sveppina í þunnar sneiðar og steiktu í örlítilli olíu, mér finnst gott að láta sveppina hafa gott pláss á pönnunni og helst ekki láta þá snertast því þannig brúnast þeir hratt og engin hætta á að þeir fari að sjóða. Settu sveppina í skál til hliðar.

Skerðu laukinn í 4 bita og svo í þunnar sneiðar og steiktu í olíu, flysjaðu kartöflurnar og skerðu þær í tvennt og svo í þunnar sneiðar og gulræturnar í sneiðar eða þunnar stangir og settu með lauknum á pönnuna. Hrærðu vel í og passaðu að kartöflurnar brenni ekki fastar við pönnuna, þetta á að steikjast í 4-5 mínútur eða þar til gullið á lit. Þá er þetta sett í skálina með sveppunum.

Í pott seturðu smá olíu og steikir græna chilimaukið í 2-3 mínútur eða þar til allt er farið að ilma dásamlega, hrærðu vel í á meðan. Þá seturðu kókosmjólkina, grænmetissoðið, rækjurnar og núðlur út í (gott að brjóta þær) og sýður í 5 mínútur. Bætir þar næst út í þetta öllu grænmetinu, bæði þessu sem þú varst búin/n að steikja og svo hinu og lætur súpuna malla í 2 mínútur í viðbót.

Verði þér að góðu!

Uppskrift af einföldu Grænu Chilimauki finnurðu hér á allskonar.is