Print Friendly

Þessi er léttur og einfaldur, og meira að segja svo hollur að það má alveg borða þetta í morgunmat. Við notum þá ávexti sem eru bestir þá stundina, þetta er örugglega æðislegt yfir bláber í haust en er rosagott núna í febrúar með banana, epli, perum og vínberjum. Fyrir þá sem eru með mjólkuróþol þá má sleppa jógúrtinni en nota þá tvöfalt magn af kókosrjómanum.

Settu kókosmjólkurdósina í ísskáp að morgni dags eða sólarhring áður en þú ætlar að búa þetta til. Þetta gerum við til þess að fá rjómann, sem er efst í dósinni, stífan og auðveldar okkur að skilja hann frá mjólkinni.

Kókoskrem f.2

  • 1 dós kókosmjólk (við notum rjómann)
  • 1 dós hrein jógúrt eða 1/2 dós grísk jógúrt
  • 2 tsk kókosolía
  • 3 tsk hunang
  • 1/4 vanillustöng (fræin innanúr)
  • ferskir ávextir

 

Undirbúningstími: 5 mínútur

(+1 dagur f. kókosmjólk í ísskáp)

Tími í ísskáp: 30mínútur

 

Taktu dósina með kókosmjólkinni úr ísskápnum og taktu kókosrjómann úr henni með skeið, hann er efst í dósinni og stífnar við kulda og ætti auðvelt að vera að ná honum úr.

Settu hann í skál  og bættu við jógúrti, hunangi, kókosolíunni og fræjunum innan úr vanillustönginni. Geymdu kókosmjólkina sem verður eftir, hana geturðu notað í smoothies, út í súpu eða bara út í súrmjólkina þína í fyrramálið.

Hrærðu þessu 0llu vel saman svo það verði létt og loftkennt.

Helltu svo í falleg glös og kældu inni í ísskáp.

Borið fram með ferskum ávöxtum.

 Það er líka hægt að setja kókoskremið í frysti og blanda í það t.d. hnetum eða korni. Það má strá yfir allt saman múslí eða muldu kexi og ekki er verra að bæta í þetta skeið af bláberjasultunni frá í haust.