IMG_0992
Print Friendly

Þetta er alveg geggjaður kjúklingapottréttur sem tekur um hálftíma að útbúa. Fljótlegur og frábær á virku kvöldi.

Láttu ekki fjölda hvítlauksrifjanna skelfa þig. Bragðið breytist í sætt og kryddað og ég gæti trúað að hægt væri að plata hvítlaukshatara til að borða þennan rétt.

Þú getur notað kjúklingabringur, kjúklingalundir eða úrbeinuð læri í þennan rétt.

Uppskriftin er fyrir 4.

Kjúklingapottur

  • 5 msk sesam olía
  • 1 msk maísmjöl
  • 18 hvítlauksrif
  • 10 2mm þykkar sneiðar engiferrót
  • 1 kg kjúklingakjöt
  • 1/2 dl soja sósa
  • 1/2 dl hrísgrjónaedik eða Mirin
  • 5 msk hunang ( 3 ef þú notar mirin)
  • gott búnt fersk basilikka, söxuð
  • 5 vorlaukar, í bitum

Undirbúningur: 5 mínútur

Eldunartími: 30 mínútur

Skerðu kjúklinginn í bita. Hrærðu saman 2 msk af sesam olíunni við 1 msk maísmjöl og nuddaðu inn í kjúklinginn. Settu til hliðar í 5 mínútur.

Hitaðu 3 msk af sesam olíu í stórri pönnu eða potti og steikir hvítlauk og engifer í 1-2 mínútur.
Bættu nú kjúklingabitunum út í og brúnaðu vel á öllum hliðum.

Settu sojasósuna, Mirin( eða hrísgrjónaedik)  ásamt hunangi út í pottinn og hrærðu vel til að blandist við allan kjúklinginn. Athugaðu að Mirin er sætt hrísgrjónavín og ef þú notar það þá notarðu minna af hunangi en ef þú notar hrísgrjónaedik. Mirin er hægt að fá á stöðum sem selja vörur til sushi gerðar, en hrisgrjónaedik færðu nánast í hvaða stórri matvöruverslun sem er í dag.

Láttu suðuna koma upp og lækkaðu svo hitann. Láttu malla án loks í um 20 mínútur eða þar til sósan er orðin þykk og kjúklingabitarnir eldaðir í gegn.

Bættu þá basilikku og vorlauknum út í og hrærðu vel, láttu malla í 2 mínútur.

Berðu fram með hrísgrjónum eða núðlum.