Print Friendly, PDF & Email

Þessar eru algerlega klassískar og þú getur notað í þær hverskonar kjöthakk sem þér finnst best. Tómatsósan er grunnsósan fyrir pasta sem er hér á allskonar.is. Það er best að byrja á að gera sósuna og fara svo í að útbúa kjötbollurnar á meðan þú leyfir sósunni að malla. Því lengur sem sósan fær að malla því bragðmeiri verður hún.

Grunnsósa með basilikku

 • 3msk ólífuolía
 • 5-6 capers
 • 2-3 ansjósur
 • 1 stór laukur, fínsaxaður
 • 4 hvítlauksrif, marin
 • 2 dósir niðursoðnir tómatar
 • 4 tómatar, flysjaðir og fræhreinsaðir
 • 2msk tómatpúrra
 • 1/2 tsk þurrkaðar chilli flögur
 • 2 tsk balsamedik
 • 2tsk sykur
 • 1 stór lúkufylli basilikka, rifin
 • salt og ferskur malaður svartur pipar
 • rifinn parmesanostur

Undirbúningstími: 20 mínútur

Eldunartími: 45-60 mínútur

Byrjaðu á að skera lítinn kross ofan í tómatana, setja þá í skál og hella yfir þá sjóðandi vatni svo að rétt fljóti yfir. Eftir um 5 mínútur tekurðu tómatana úr heita vatninu og stingur þeim ofan í ískalt vatn, þá á að vera hægt að taka utan af þeim hýðið án vandræða. Á meðan tómatarnir eru í heita vatninu skaltu fínsaxa laukinn og merja hvítlaukinn.

Hitaðu ólífuolíuna í potti á meðalhita, skerðu ansjósurnar í grófa bita og settu í pottinn ásamt capers og hvítlauk. Steiktu  í 2 mínútur eða þar til ansjósurnar leysast upp í olíunni. Hér þarf að passa að hafa ekki of mikinn hita undir pottinum til að við missum ekki allt þetta dásemdarbragð yfir í beiskju.

Þá setjum við laukinn út í og steikjum í um 5 mínútur þar til hann verður ljósgullinn eða glær.

Flysjaðu tómatana og fræhreinsaðu og grófsaxaðu.

Nú getur þú sett tómatana, niðursoðnu tómatana og tómatpúrruna út í pottinn ásamt chilli flögunum, edikinu og sykrinum og láttu sjóða í 30-45 mínútur eða þar til sósan fer að þykkna.

Þá er basilikkunni og góðum skammt af rifnum parmesan (um 4-5msk), salti og pipar bætt í eftir smekk.

Láttu suðuna koma upp örsnöggt, slökktu undir pottinum og smakkaðu svo aftur til. Ef þú átt grænan stilk af tómat þá er frábært að saxa hann niður og bæta í sósuna þegar er slökkt er undir pottinum.

Kjötbollur fyrir 4

 • 500gr kjöthakk
 • 20 gr rifinn parmesan
 • 2 egg
 • 1 1/2 dl fersk mynta og steinselja, saxaðar
 • salt
 • pipar
 • 25 gr brauðmylsna (1 brauðsneið)
 • 1 1/2 tsk múskat

Undirbúningstími: 10 mínútur

Eldunartími: 15 mínútur

Settu allt hráefnið fyrir kjötbollurnar í skál og hnoðaðu varlega saman með höndunum. Búðu til bollur á stærð við borðtenniskúlur eða minni úr deiginu og settu á disk.

Settu diskinn inn í ísskáp í 10 mínútur til að bollurnar detti síður í sundur í steikingu.

Steiktu kjötbollurnar í olíu á pönnu í 10-15 mínútur eða þar til þær eru jafnt brúnaðar.

Borið fram með spaghetti; 2-3 bollur eru settar ofan á pastað í skál og sósu hellt yfir. Frábært að rífa pínu parmesan yfir líka og setja ferska myntu yfir.