IMG_3022
Print Friendly

Þessar gerbollur eru með eggi og í staðinn fyrir sykur notum við hunang sem gefur bollunum einstaklega mjúkt og fínlegt bragð.

Hunangsbollur

  • 2 tsk þurrger
  • 2.5 dl volgt vatn
  • 4 msk hunang
  • 1 tsk salt
  • 1 egg
  • 350 gr  hveiti
  • 1 msk smjör, bráðið(má sleppa)

Undirbúningur: 15 mínútur

Bið: 2 klst og 30 mínútur

Bakstur: 10-13 mínútur

Blandaðu saman í stórri skál, gerinu og volga vatninu og láttu standa í 5 mínútur þar til fer að freyða örlítið.

Bættu nú hunangi, salti og eggi saman við gerblönduna og hrærðu vel.

Bættu meirihluta hveitisins saman við og hnoðaðu vel, bættu við meira hveiti ef deigið er blautt, en ekki meir en svo að það rétt nái að sleppa því að klístrast við þig eða borðplötuna.

Hnoðaðu í 8-10 mínútur, því lengur sem þú hnoðar, því loftkenndara verður deigið og betra.

Settu deigið í skál, eldhúsfilmu yfir og láttu hefast í 2 klst eða þar til það hefur rúmlega tvöfaldast að ummáli.

Taktu deigið varlega úr skálinni og hnoðaðu létt. Skiptu í 12 jafnstóra hluta og hnoðaðu/rúllaðu hvern hluta í mjúka bollu. Settu á ofnplötu með bökunarpappír og láttu hefast í 20 mínútur í viðbót.

Hitaðu ofninn á meðan í 200°.

Penslaðu bollurnar með bráðnu smjöri ef þú vilt. Bakaðu bollurnar í miðjum ofninum í 10-13 mínútur eða þar til gullinbrúnar.