IMG_3068-2
Print Friendly

Heitreyktur makríll er frábær einn og sér, út í salöt, á samlokur, hrærður út í smá sýrðan rjóma ofan á ristað brauð.

Og það er ekkert mál að heitreykja þó að þú eigir ekki reykofn. Það eina sem þú þarft er grill og stór pottur og viðarspænir. Spænina geturðu fengið í Ellingsen eða flestum þeim verslunum sem selja vörur til reykingar.

Heitreyktur makríll

  • 4 flök makríll
  • gróft salt
  • svartur pipar
  • 1 handfylli viðarspænir

Undirbúningur: 15 mínútur

Reyking: 10-15 mínútur

Byrjaðu á að skola flökin vel og leggja þau á disk. Stráðu grófu salti yfir og láttu standa í 10 mínútur.

Hitaðu grillið, hafðu það mjög heitt.

Ef þú átt reykofn þá fylgirðu venjulegri aðferð miðað við þann ofn sem þú átt.

Ef þú aftur á móti átt ekki reykofn þá geturðu notast við stóran pott og einnota grillbakka.

Settu viðarspænina á botninn í pottinum.

Stækkaðu og fjölgaðu götunum á grillbakkanum, beyglaðu endana á honum niður þannig að hann passi í pottinn og standi 6-8 cm ofan við viðarspænina.

Skolaðu fiskinn og þerraðu. Leggðu á grind í reykofninum eða ofan á grillbakkann í pottinum og malaðu svartan pipar yfir. Enga nísku, malaðu svolítið vel af honum yfir fiskinn.

Settu nú lok á pottinn - eða lokaðu reykofninum- og settu á grillið og lokaðu því.

Hitinn af grillinu ætti að kveikja í viðarspæninum og reykurinn að byrja að leika um fiskinn.

Ef þú ert með meðalstór flök þá duga 10 mínútur, ef þau eru mjög þykk þá reykirðu í 15 mínútur.

Hafðu nokkuð hraðar hendur við að taka fiskinn úr pottinum/reykofninum, notaðu pottaleppa og tól og tæki til að lyfta fiskinum upp úr, passaðu þig að anda ekki að þér reyknum.

Borðaðu strax, eða kældu og njóttu eins og þig lystir.