Print Friendly, PDF & Email

Og áfram höldum við með gæsina. Nú marinerum við og heitreykjum gæsabringur.
Þú þarft ekki endilega að eiga reykofn til að heitreykja.  Það eina sem þú þarft er grill og stór pottur og viðarspænir. Spænina geturðu fengið í Ellingsen eða flestum þeim verslunum sem selja vörur til reykingar.

Í forrétt geturðu miðað við 1 bringu fyrir 4, en annars miðarðu við hálfa bringu á mann í aðalrétt.

Heitreyktar gæsabringur

 • 2 gæsabringur
 • Marinering
 • 1 dl sojasósa
 • 5 msk hunang
 • 1 tsk svartur pipar, nýmalaður
 • 2 hvítlauksrif, marin
 • 1/2 tsk cayennepipar
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • 2 cm engiferrót, rifin
 • Sósa
 • 1 dl nautasoð
 • 1 dl rauðvín
 • 2 msk rifshlaup
 • 1 msk smjör
 • -
 • handfylli viðarspænir

Undirbúningur: 10 mínútur

Marinering: 3 klst

Reyking: 10 mínútur

Skerðu bringurnar í 2cm þykkar sneiðar.

Hrærðu saman öllum innihaldsefnunum fyrir marineringuna í stórri skál. Settu kjötið þar í og passaðu að fljóti vel yfir. Settu plastpoka utan um skálina og láttu marinerast í ísskáp í 3klst.

Byrjaðu á sósunni um 10 mínútum áður en þú ætlar að reykja bringurnar.

Settu nautasoð og rauðvín í pott og láttu sjóða á góðum hita þar til hefur soðið niður um helming. Þú getur notað kjötkraft og vatn í staðinn fyrir soðið, notaðu um 1/3 af nautakrafts teningi og 1 dl af vatni.

Þegar rauðvínið og soðið hefur soðið niður bætirðu rifsberjasultunni út í og sýður þar til sósan fer að þykkna.

Settu 1 msk af smjöri í lokin og hrærðu vel. Slökktu undir pottinum og undirbúðu reykinguna.

Þegar kemur að því að reykja bringurnar þá byrjarðu á að taka kjötið úr marineringunni og leggja á disk, láta aðeins renna af því.

Hitaðu nú grillið, hafðu það mjög heitt.

Ef þú átt reykofn þá fylgirðu venjulegri aðferð miðað við þann ofn sem þú átt.

Ef þú aftur á móti átt ekki reykofn þá geturðu notast við stóran pott og einnota grillbakka.

Settu viðarspænina á botninn í pottinum.

Stækkaðu og fjölgaðu götunum á grillbakkanum, beyglaðu endana á honum niður þannig að hann passi í pottinn og standi 6-8 cm ofan við viðarspænina.

Leggðu á grind í reykofninum eða ofan á grillbakkann í pottinum.

Settu nú lok á pottinn - eða lokaðu reykofninum- og settu á grillið og lokaðu því.

Hitinn af grillinu ætti að kveikja í viðarspæninum og byrja að elda kjötið.

Þar sem bringurnar eru í sneiðum þá er reykingartíminn stuttur 6-8 mínútur eftir að fullum hita er náð.

Berðu fram með rifs- og rauðvínssósunni og sellerírótarmauki eða mjög fínni kartöflumús.

Sellerírótarmaukið er einfalt að laga, þú flysjar og brytjar niður 1/2 sellerírót og sýður í potti í saltvatni. Þegar rótin er orðin mjúk hellirðu vatninu af og setur rótina í matvinnsluvél, settu um 2 msk af smjöri og kreistu safa úr 1/2 sítrónu út í, notaðu rjóma til að þynna maukið og kryddaðu til með salti og pipar. Gott er að láta matvinnsluvélina ganga í góðan tíma til að fá maukið sem fíngerðast, annars er hægt að stappa og pressa maukið í gegnum sigti til að fá það silkimjúkt.

Með heitreyktri gæs er dásamlegt að drekka Jacob’s Creek Shiraz Cabernet.