Print Friendly

Harissa er sterkt kryddmauk frá Norður Afríku. Það má nota með ostum, út í súpur, sem kryddmauk á kjöt, í sósur, á brauð og í samlokur, í pottrétti, sem ídýfa með snakki eða grænmeti, út í hrærð egg, í baunarétti, í sósur, út í kúskús…..

Eiginlega í hvað sem þér dettur í hug!

Gott er að láta bragðið þroskast og lagerast í krukkunni í 3-4 daga áður en þú notar maukið. Það verður bara betra og betra með tímanum!

 

Harissa kryddmauk

  • 2 tsk cumin fræ
  • 1 tsk kóríander fræ
  • 1/2 tsk kúmen fræ
  • 1/2 tsk fennel fræ
  • 3-5 þurrkuð rauð chili
  • 3 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • hnífsoddur af kanil
  • 2 grillaðar rauðar paprikur (flysjaðar)
  • 2 msk olífuolía

Tekur um 25 mínútur

Byrjið á að rista paprikurnar. Það er hægt að gera með því að skera þær í tvennt og fræhreinsa, setja undir grillið í bakarofninum þar til húðin á þeim verður svört. Þá eru þær settar í plastpoka, bundið fyrir og inn í ísskáp. Eftir 15mínútur er hægt að nudda af þeim húðina í gegnum plastpokann, skola svo afganginn af undir rennandi vatni.

Það er líka hægt að svíða þær yfir gasloga ef þú ert með gaseldavél, mundu bara eftir að nota góða töng, grilltöng er fín til verksins eða einhver önnur töng með löngu skafti. Mér finnst þægilegra að nota bakarofninn, þá get ég gert eitthvað annað á meðan - svo lengi sem ég gleymi þeim ekki inni í ofninum!

Til að búa til maukið:  Þurrsteikið cumin, kóríander, kúmen, fennel og þurrkuð chili á pönnu í 2-3 mínútur eða þar til fræin fara að poppa og ilma. Látið kólna og malið svo.

Kryddblandan er svo sett í matvinnsluvél eða mixer, hvítlauk bætt við, salti og kanil og þetta maukað vel saman. Bæta þar næst við paprikunum og olíunni og maukað þar til þetta verður gróft mauk. Sett í krukku, geymist í 2-3 mánuði í ísskáp.

Til að geyma allskyns kryddmauk í langan tíma ísskáp er gott að hella ólífuolíu yfir maukið í krukkunni svo fljóti yfir, þá ertu búin/n að búa til loftþétt innsigli á maukið.

 

_MG_0312