Harira

Birtist í Súpa, Uppskriftir

Harira fyrir 4-6

 • 2 msk olía
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 350gr lambakjöt í bitum
 • 2 sellerístilkar, sneiddir
 • 2 gulrætur, skornar í bita
 • 2 msk salt
 • 2 msk nýmalaður svartur pipar
 • 1 tsk túrmerik
 • 1 tsk karríduft
 • 2 tsk engifer, malaður
 • 100 gr brúnar eða grænar linsur
 • búnt af steinselju, saxað
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 1 teningur lamba- eða nautakraftur
 • 1 tsk kanill, malaður
 • 3 L vatn
 • 3-4 msk hveiti, til að þykkja
 • 1 dós kjúklingabaunir

Undirbúningstími: 15 mínútur

Eldunartími: 60 mínútur

Steiktu laukinn og kjötið í olíunni þar til kjötið fer að brúnast.

Bættu nú við selleríi, gulrót, salti, pipar, engiferdufti, túrmerik og karrídufti. Hrærðu vel til að steikja kryddið þar til þú finnur ilminn af kryddinu.

Helltu þá hluta af vatninu út í, nóg til að rétt fljóti yfir kjötið, og láttu suðuna koma upp. Lækkaðu nú hitann og láttu malla rólega í 30 mínútur.

Settu linsubaunirnar, steinselju og niðursoðnu tómatana út í bættu 2-3 dl af vatni út í. Láttu sjóða þar til kjötið er mjög meyrt og linsubaunirnar soðnar (u.þ.b. 15 mín).

Bættu út í pottinn að lokum afgangnum af vatninu, kjötkraftinum og kanilnum og hrærðu vel.  Hristu saman í glerkrukku með loki smá hveiti og vatni og helltu rólega út í súpuna á meðan þú hrærir í henni til að þykkja hana. Skolaðu kjúklingabaunirnar og bættu út í og  láttu súpuna sjóða á lágum hita í 10 mínútur til viðbótar, hrærðu vel í henni annað slagið.

Súpan er dásamleg borin fram með flatkökum eða grófu, nýbökuðu brauði. Það er gott að setja um 1 msk af sýrðum rjóma í hverja skál og strá saxaðri steinselju yfir og hnífsoddi af kanil.

Fljótlegt flatbrauð fyrir 4

300gr hveiti 1 dl jógúrt eða súrmjólk 1 1/2 tsk lyftiduft vatn

Hnoðaðu saman öllum efnunum, bættu vatni í ef deigið er of þurrt. Skiptu deiginu í 4 hluta. Taktu hvern hluta fyrir sig og hnoðaðu, breiddu út í köku jafnstóra pönnunni sem þú ætlar að nota til að steikja kökuna. Penslaðu örlítilli olíu á kökuna og steiktu á pönnunni við meðal hita þar til kakan fer að verða gullin brún, þá penslarðu hina hliðina og snýrð kökunni.