IMG_1101
Print Friendly

Þessi uppskrift er frábær fyrir hamborgara, bollur, samlokur og kjötlokur.

Uppskriftin er um 20 bollur.

Hamborgarabrauð

  • 2dl heitt vatn (soðið)
  • 4 dl mjólk, köld
  • 60 gr sykur
  • 2msk þurrger
  • 2 tsk salt
  • 5 egg
  • 1 dl ólífu olía
  • 800gr hveiti
  • 1 egg (til að pensla bollurnar)
  • fræ til skreytingar

Undirbúningstími: 15 mínútur

Hefun: 1klst+45 mínútur

Bakstur: 15 mínútur

Hrærðu saman í stórri skál vatni, mjólk, sykri og geri í skál og láttu standa í nokkrar mínútur eða þar til blandan fer að freyða og gerið vaknar til lífsins.

Bættu þá í blönduna salti, eggjunum (sláðu þau saman fyrst), 300gr af hveiti og ólífu olíunni.

Hrærðu vel saman þar til allt hefur blandast vel.

Bættu nú við hveitinu í litlum skömmtum og byrjaðu að hnoða. Athugaðu að þú gætir þurft aðeins meira eða minna hveiti, fer allt eftir stærð eggjanna. Deigið á að vera örlítið klístrað og ekki mjög þétt í sér.

Hnoðaðu vel í um 10 mínútur eða þar til deigið er teygjanlegt og mjúkt. Settu í skál, viskustykki yfir og láttu hefast á  hlýjum stað í um 1 klst.

Þegar deigið hefur hefast skaltu taka það varlega úr skálinni, ekki kýla það niður. Skiptu því í 20 jafnstóra hluta og hnoðaðu úr þeim fallegar bollur. Settu bollurnar á smjörpappír á bökunarplötu og láttu hefast í 40 mínútur til viðbótar.

Penslaðu eggi ofan á þær og stráðu smá fræjum yfir, þú getur notað birkifræ, sesamfræ, hörfræ eða nigellu fræ - eða graskers. Bara hvað sem þér dettur í hug.

Hitaðu ofninn í 180°C og bakaðu svo bollurnar í 12-15 mínútur þar til þær verða gullnar á kollinum.

Láttu kólna á bökunargrind áður en þú skerð þær og fyllir með hverju því sem þér dettur í hug.