_MG_0242
Print Friendly

Þetta brauð er afar hentugt til að klára úr mjölpokunum inni í skáp, hver kannast ekki við að eiga eins og hálfan bolla af rúg, hálfan af spelti, minna af hveitikími osfrv. Við þurfum bara að ná í 400gr samtals, ath þó að nota ekki meira en 70gr af höfrum.

Grísku jógúrtinni má skipta út fyrir hreina jógúrt, súrmjólk eða ABmjólk, mjólkin sem gefin er upp getur verið meiri eða minni, við þynnum deigið eftir tilfinningunni, það á að vera það þykkt að við náum að hnoða það rétt til að búa til bolta úr því.

Í þessu brauði er hvorki ger né sykur.

 

Gulróta- og hnetubrauð

  • 400gr hveiti / bygg / rúgur / heilhveiti / hafrar
  • 1 msk salt
  • 2 tsk matarsódi
  • 100gr rifnar gulrætur
  • lúka af ristuðum hnetum
  • 250ml grísk jógúrt eða súrmjólk
  • um 100ml mjólk

 

Undirbúningstími: 10-15 mínútur

Bökunartími: 20-25 mínútur

Hitið ofninn í 220°C (210°C á blæstri).

Í brauðið má nota hvaða mjöl sem er og margar eða fáar tegundir.

Hneturnar geta verið ristaðar valhnetur, heslihnetur, furuhnetur eða jafnvel afgangur úr hnetuskálinni eftir jólin.

Öllu er blandað saman í skál og svo hnoðað í bolta og sett á bökunarpappír á plötu. Skerið  á ská yfir toppinn á brauðinu.

Bakið í 30 mínútur.
Þegar brauðið er tilbúið heyrist hljómmikið dunk í því þegar er bankað á botninn á því.

Best er að frysta heimabakað brauð í álpappír, þá er hægt að taka það út úr frystinum og hita í heitum ofni í 20-25 mínútur. Alveg eins og nýbakað!