Warning: Cannot modify header information - headers already sent by (output started at /home/allskonar/Sites/allskonar.is/allskonar/wp-content/themes/tasty/header.php:3) in /home/allskonar/Sites/allskonar.is/allskonar/wp-content/themes/tasty/header.php on line 11
allskonar.is | Grillaðir humarhalar
Print Friendly

Grillaðir humarhalar með smjöri og fullt af hvítlauk eru hátíðarfæða.

En margir gleyma að í skeljunum er matur líka, þær á að geyma og nota til að sjóða upp dýrindis soð fyrir humarsúpu. Þannig fáum við sem mest út úr humrinum og þá fer hann að verða ódýrara hráefni - humar eða humarsúpa þarf ekki endilega að vera spari ef við nýtum hann í botn.

Uppskrift af humarsúpu birtist á mánudag þannig að það er tilvalið að grilla humarinn núna um helgina, geyma skeljarnar og allt smjör og grams sem verður afgangs og sjóða svo upp súpu eftir helgina. Þú getur geymt skeljarnar í zip lock poka í ísskáp í nokkra daga, eða sett í frysti.

Þú getur reiknað með um 400-500gr af humri á mann og aukið í uppskriftina miðað við það.

Humarhalar fyrir 2

  • Humarhalar 1kg
  • 50gr smjör
  • 4 hvítlauksrif, marin
  • handfylli steinselja
  • nýmalaður svartur pipar

Byrjaðu á að hreinsa humarinn og taka úr honum „æðina“ eða meltingarveginn. Þú klippir ofan í bakið á honum og opnar skelina, fjarlægir svörtu æðina sem þú sérð.

Stappaðu saman smjöri og hvítlauknum.

Raðaðu humarhölunum í eldfast mót, eða á grillbakka og leggðu klípu af hvítlaukssmjöri ofan á hvern hala. Malaðu fullt af svörtum pipar yfir.

Grillaðu við góðan hita í 2-3 mínútur eða þar til humarinn er tilbúinn.

Þú getur grillað humarinn í ofni við 200°C í 3-4 mínútur.

Dreifðu saxaðri steinselju yfir rétt áður en er borið fram.

Það er gott að rífa smá börk af lime yfir humarinn í stað steinseljunnar, eða blanda berkinum út í smjörið.

Humarinn hefur svo ómótstæðilegt bragð að mér finnst alger óþarfi að drekkja því bragði í allskyns kryddi, hvítlaukurinn dregur fram sætt bragðið af kjötinu og piparinn gefur því nýjan tón.

Berðu fram með góðu brauði og ísköldu hvítvíni eins og Jacob’s Creek Chardonnay eða eplasafa.

Láttu alla setja skeljarnar í mótið/grillbakkann, helltu svo úr mótinu ofan í frystipoka, láttu smjör og steinselju og hvítlauk og allt fara með. Geymdu í ísskáp eða frysti þar til þú vilt gera dýrindis súpu.