_MG_0708
Print Friendly

Grænt kryddmauk er frábært út í fiskrétti og með kjúkling, út í súpur og grænmetisrétti. Það er hægt að kaupa thailenskt grænt chilimauk í búðum en mér finnst alltaf best að búa þetta til sjálf, ég veit upp á hár hvað fer í þetta, hversu mikill sykur og salt og þarf ekki að hafa áhyggjur af óhollum rotvarnarefnum. Að auki er svo miklu meira bragð af heimatilbúnu kryddmauki en búðarkeyptu.

Þetta mauk er best að búa til í matvinnsluvél en að sjálfsögðu er hægt að gera það í mortéli, það tekur bara lengri tíma og þarfnast mun meira vöðvaafls. Þessi uppskrift dugar í 3-4 rétti, ég nota um 3-4msk í hvern rétt en auðvitað má nota meira eða minna, allt eftir því hversu sterkan þið viljið hafa matinn.

Grænt kryddmauk

 • 1 stk sítrónugras
 • 3 græn chili
 • 1 skallottulaukur
 • 4-5 hvítlauksrif
 • 3cm stykki engiferrót (um 2msk)
 • 1/2 bolli ferskur kóríander
 • 1/2 bolli fersk basilikka
 • 1/2 tsk malað cumin
 • 1/2 tsk hvítur pipar
 • 1/2 tsk malað kóríander
 • 3 msk sojasósa
 • 1/2 tsk salt
 • 2 msk lime safi
 • rifinn börkur af 1/2 lime
 • 2 tsk hrásykur
 • 3-4 msk kókosmjólk

Undirbúningstími: 5-10 mínútur

Settu þetta allt í matvinnsluvél, athugaðu að hreinsa af sítrónugrasinu ef það er farið að tréna og skera endann af því. Þú ræður hvort þú fræhreinsar chiliin eða heldur fræjunum með, hér stjórnar þú hversu sterkt þú vilt hafa maukið.

Það er hvorki nauðsynlegt að flysja hvítlauk né engifer, en má gera ef vill.

Kókosmjólkin er sett að síðustu út í, 1 msk í einu, rétt til að halda maukinu saman; það á ekki að vera þunnt, heldur eins og þykkt pestó.

Þegar við notum maukið í eldamennsku,  þá steikjum við það í olíu áður en nokkuð annað fer í pönnuna til að fá allt bragðið úr kryddinu.

Líttu á uppskriftina af Kókossúpunni til að fá hugmyndir.

Maukið geymist í ísskáp í 2 -3 vikur í loftþéttu íláti en það er hægt að frysta það í skammtastærðum í plastfilmu eða ísmolamóti og þá er alltaf til ilmandi ferskt chilimauk þegar þér hentar.