Print Friendly

Ef þú hefur tíma til að útbúa þitt eigið soð þá muntu ekki sjá eftir því, munurinn á alvöru soði og soði úr súputeningum eða dufti er ótrúlegur.
Þessi uppskrift er fyrir 12-15L pott en að sjálfsögðu má gera minna magn, það getur verið sniðugt að nota grænmetisafganga og flus, afskurð og annað sem annars færi beint í lífrænan úrgang og setja í poka í frysti og merkja sem Soðgrænmeti. Þá er hægt að henda því í pottinn með næst þegar þú gerir grænmetis- eða kjúklingasoð.

Þegar grænmetissoð er búið til snýst allt um að fá sem mest bragð  og því hægt að spinna upp úr sér allskyns bragðtegundir og leika sér með það sem fer í pottinn.
Það er engin ein uppskrift til og engar sérstakar reglur aðrar en að því lengur sem soðið er og hægar, því bragðmeira verður soðið.
Það er talið betra að skera grænmetið í sem minnsta bita, nærri saxa það, til að ná sem mestu bragði fram.

Grænmetissoð

 • 2 stórir laukar, flysjaðir og grófsaxaðir
 • 1 púrrulaukur, skorinn í sneiðar
 • 8-10 íslenskar gulrætur, skornar í sneiðar
 • 4 sellerístilkar, skornir í bita
 • 8 hvítlauksrif, söxuð eða marin
 • 2 grænar paprikur, fræshreinsaðar og skornar í bita
 • 2 stórir tómatar, skornir í bita
 • 1/2 blómkálshaus, skorinn í  bita, stilkar með
 • 1/2 broccolihaus, skorinn í  bita, stilkar með
 • 3 kartöflur, flysjaðar og skornar í  teninga
 • Allskyns kryddjurtir - hvaða bragð viltu hafa ráðandi?
 • 10-15 sveppir, skornir í sneiðar
 • 10 svört piparkorn
 • 10 græn piparkorn
 • 5 lárviðarlauf
 • rúmlega 1 dl ólífuolía
 • 2 dl hvítvín
 • Sjávarsalt

 

Undirbúningstími: 30mínútur
Eldunartími: 2 1/2 klst +

 

Við byrjum á að láta grænmetið svitna smá, léttsteikjum það í olíu á pönnu og setjum það svo út í pottinn sem við ætlum að nota til að sjóða soðið.

Þetta þarf að gera í hollum, það borgar sig ekki að hafa of mikið á pönnunni því þá náum við ekki að láta alla bitana svitna og fá fram bragðið.
Ekki spara sveppina, þeir eru stappfullir af glutamic sýru sem ýkir bragð, eins og náttúrulegt MSG.

Þegar við höfum látið allt grænmetið svitna þá hellum við köldu vatni yfir svo að fljóti yfir grænmetið ásamt hvítvíninu og ólífuolíunni.

Það er nauðsynlegt að við byrjum með kalt vatn til að við náum öllu bragðinu úr grænmetinu; grænmeti losar bragð við mismunandi hitastig. Og til að tapa nú engu bragði þá sjóðum við hægt og rólega við lágan hita.

Þetta þarf að sjóða eins lengi og hægt er, eftir um 2 klst getum við byrjað að smakka annaðslagið, kannski á svona 20-30 mínútna fresti.

En hvenær á að hætta að sjóða?
Þegar bragðið hefur ekkert breyst á milli þess sem smakkað er þá  fyrst er hægt að sía grænmetið frá soðinu, salta og smakka til.

Soðið má svo frysta í plastdöllum eða sterkum ziplock frystipokum. Gott er að merkja á pokana hversu mikið magn er í þeim. Mér hefur fundist best að hafa 450ml og 650ml í pokunum, það magn virðist oftast koma fyrir í uppskriftum.

Pokana er svo hægt að pressa flata þegar soðið í þeim er byrjað að frjósa og þá er hægt að stafla þeim í frystinum.

 

: Ef þú vilt hafa soðið algerlega tært þá borgar sig að frysta það alveg, leyfa því svo að þiðna yfir nótt í sigti með grisjuklút í botninn.

: Það er hægt að endurnota grænmetið með því að stappa það, blanda hveiti, brauðmylsnu, eggjum, kryddi og lyftidufti við það og búa til grænmetisklatta til að steikja.