Græn tómatsúpa

Birtist í Grænmeti, Súpa, Uppskriftir

Núna er hægt að fá græna tómata í matvöruverslunum, þeir eru frábært hráefni í allt mögulegt. Hér kemur uppskrift af fljótlegri og einfaldri súpu, í hana notarðu grænt curry mauk sem hægt er að fá í matvöruverslunum (green curry paste) eða búa til sjálfur. Smelltu hér til að fá uppskriftina af grænu chili/currymauki. Ef þú vilt hafa súpuna milda notarðu 1 tsk en ef þú vilt hana vel sterka þá seturðu 3 teskeiðar.

 

Græn tómatsúpa fyrir 4

 • 1 msk olía
 • 1 laukur, saxaður
 • 1/2 tsk cumin fræ
 • 1 hvítlauksrif, marið
 • 2cm engiferrót, rifin
 • 250 gr kartöflur, flysjaðar og saxaðar
 • 250 gr grænir tómatar, grófsaxaðir
 • 4 dl vatn
 • 1 teningur grænmetiskraftur
 • 3 dl kókosmjólk
 • 1-3tsk grænt chili/currymauk
 • salt og pipar
Undirbúningur: 10 mínútur

Suðutími: 30 mínútur

Settu olíuna í stóran pott og steiktu í henni laukinn yfir meðalhita í 2-3 mínútur. Bættu nú við cumin fræjunum, hvítlauk og engifer og steiktu í 1 mínútu. Bættu þar næst við tómötunum og kartöflunum og steiktu í 2-3 mínútur.

Settu vatnið og grænmetiskraftinn út í og láttu suðuna koma upp. Lækkaðu hitann undir pottinum og láttu malla við vægan hita í 20-25 mínútur eða þar til kartöflubitarnir eru mjúkir.

Helltu þá kókosmjólkinni út í og currymaukinu, ef þú vilt sterka súpu þá seturðu allt að 3 teskeiðum, ef þú vilt hana milda þá seturðu um 1 teskeið.

Notaðu töfrasprota til að mauka súpuna, þú getur líka hellt henni varlega í matvinnsluvél eða blandara og maukað hana.

Smakkaðu til með salti og pipar.

Ég setti djúpsteiktar núðlur ofan á til að fá smá stökkt í súpuna. Þú getur líka notað fræ eins og graskersfræ, hörfræ eða sesamfræ. Það er líka skemmtilegt að nota cashew hnetur eða furuhnetur - eða bara rista eina sneið af brauði vel og skera í bita og setja út á.

Verði þér að góðu!