Print Friendly

Það er ekki flókið að gera fisk og franskar heima. Þú þarft góðan, nýjan fisk eins og þorsk eða ýsu og kartöflur og smá tíma.

Ég vel að djúpsteikja ekki kartöflurnar, heldur baka þær í ofni á meðan ég steiki fiskinn.

Þessar uppskriftir miðast við 4.

Kartöflur í ofni

 • 6-8 meðalstórar kartöflur
 • 4 msk olía
 • salt og pipar

Undirbúningstími: 5 mínútur

Baksturstími: 20 mínútur

Hitaðu ofninn í 180°C.

Skerðu kartöflurnar í sneiðar og síðan í strá, um 7-10mm þykk. Settu í skál og helltu olíunni yfir, stráðu salti og pipar yfir og blandaðu vel. Settu á bökunarpappír og bakaðu í 18-20 mínútur. Kíktu í ofninn eftir 10 mínútur og hrærðu aðeins í kartöflunum.

Fiskur

 • 600-700 gr fiskur
 • 185 gr hveiti
 • 50 gr maísmjöl
 • 1/2 tsk cayenne pipar
 • 1/2 tsk paprika
 • salt og pipar
 • 1 tsk lyftiduft
 • 330ml pilsner eða sódavatn
 • olía til djúpsteikingar

Undirbúningstími: 5 mínútur

Steikingartími: 15-20 mínútur

Byrjaðu á að hita olíuna. Þú getur notað pott á eldavél við mikinn hita eða djúpsteikingarpott.

Athugaðu að fara ALDREI frá potti með heitri olíu og hafa lok við höndina og vera með á hreinu hvar eldvarnarteppið er staðsett í eldhúsinu.

Skerðu fiskinn í stóra munnbita og leggðu til hliðar.

Blandaðu saman í skál öllum þurrefnunum og kryddinu. Hafðu pilsnerinn eða sódavatnið íííískalt, helltu út í deigið og hrærðu af krafti. Nú er deigið þitt tilbúið.

Dýfðu fiskibitunum í deigið og settu út í olíuna, steiktu þar til bitarnir eru gullinbrúnir. Taktu þá upp úr og láttu renna af þeim á disk með pappírsþurrku.

Tartare sósa

 • 2 msk sýrður rjómi
 • 1 msk majones
 • 4 tsk capers
 • 4 súrar gúrkur, litlar
 • handfylli steinselja
 • _
 • 3 tsk sítrónusafi
 • svartur pipar

 Undirbúningstími: 5 mínútur

Settu innihaldsefnin í matvinnsluvél og maukaðu saman í smá stund. Smakkaðu til með sítrónusafa og pipar.

Verði þér að góðu!