Fíkjumarmelaði

Birtist í Meðlæti, Sætindi, Uppskriftir

Dásamlegar þurrkaðar gráfíkjur, sætt epli og ilmandi fersk sítróna og appelsína gera þetta marmelaði algerlega ómótstæðilegt.

Fíkjumarmelaði

  • 10 gráfíkjur
  • 1 epli
  • 1/2 sítróna
  • 1 appelsína
  • 500 ml vatn
  • 300 gr sykur
  • 1/2 tsk engifer, malað
  • hnífsoddur salt
Undirbúningur: 15 mínútur

Suðutími: 60-90 mínútur

Flysjaðu eplin og taktu úr þeim kjarnann, settu í matvinnsluvél með fíkjunum og blandaðu vel þar til allt er fínsaxað. Settu í stóran pott. Skerðu sítrónuna í tvennt og kreistu safann úr henni út í skál sem þú setur til hliðar. Settu nú helmingana af berkinum út í pottinn.

Skrapaðu kjötið innan úr appelsínunni og settu í pottinn. Skerðu nú appelsínubörkinn í fína strimla og  bættu út í pottinn ásamt 500 ml af vatni.

Láttu suðuna koma upp og láttu nú sjóða við vægan hita í 10 mínútur. Hrærðu vel í á meðan. Lækkaðu nú hitann og láttu malla í aðrar 10 mínútur. Settu nú sykur, salt og engifer út í pottinn og hrærðu vel. Láttu sjóða í 30 mínútur í viðbót. Hrærðu annað slagið.

Fylgstu með síðustu mínúturnar hvort marmelaðið fer að hlaupa. Það getur þú gert með því að setja undirskál inn í frysti og taka hana út íííískalda, láta dropa af heitu marmelaðinu á hana og prófa svo að ýta til þegar það hefur kólnað. Ef það rennur út um allt þá þarftu að sjóða lengur, ef það virðist hafa stífnað þá er allt í góðum málum og þú getur slökkt  undir pottinum, hrært sítrónusafanum saman við og sett marmelaðið í krukkur.

Ath að sótthreinsa krukkurnar og lokin með sjóðandi vatni eða í uppþvottavélinni á heitustu stillingu áður en þú setur í þær.

Geymist í ísskáp í 3 mánuði - ef það klárast ekki mun fyrr!