Print Friendly

Þessir eggaldin turnar eru dásamlegir sem aðalréttur eða forréttur. Meira að segja sem meðlæti.

Grillað eggaldin og kúrbítur raðað saman í turn með ferskri basilikku, grilluðum mozarella osti, parmesan og dýrindis tómatasósu.

Uppskriftin er fyrir 4-6 turna.

Eggaldinturnar

 • Sósa
 • 2 msk ólífuolía
 • 2 hvítlauksrif, marin
 • 1 tsk capers, saxað
 • 1 dós niðursoðnir tómatar, hakkaðir
 • 2 msk tómatpúrra
 • 1/2 tsk oregano
 • 2 tsk balsamedik
 • 1/2 tsk sykur
 • salt og pipar
 • Turnar
 • 1 stórt eggaldin, í sneiðum
 • 1 kúrbítur, í sneiðum
 • 3 msk ólífuolía
 • salt og pipar
 • 125 gr Mozarella, í sneiðum
 • handfylli fersk basilikka
 • parmesan

Undirbúningur: 15 mínútur

Eldunartími: 40 mínútur

Byrjaðu á að útbúa sósuna. Settu olíu í pott og steiktu hvítlaukinn og capers við vægan hita. Settu þar næst tómatana, tómatpúrruna, oregano, edik og sykur út í, hrærðu vel og láttu malla í 10-15 mínútur á meðan þú útbýrð grænmetið fyrir grillið.

Hitaðu grillið í meðalhita.

Skerðu eggaldinið í 1cm þykkar sneiðar. Skerðu kúrbítinn í aðeins þynnri sneiðar langsum.

Leggðu grænmetið á fat og penslaðu með ólífuolíu, stráðu salti og nýmöluðum svörtum pipar yfir.

Slökktu undir sósunni.

Skerðu mozarella ostinn í sneiðar og settu á disk.

Taktu nú með þér að grillinu sósuna, grænmetið og ostinn og basilikkuna. Hafðu smá parmesan stykki með og fínt rifjárn.

Grillaðu grænmetið við meðalhita í um 4-5 mínútur á hvorri hlið um sig.

Leggðu nú sneiðar af Mozarella ostinum ofan á eggaldinsneiðarnar og láttu bráðna á grillinu í 1-2 mínútur.

Þegar grænmetið er tilbúið þá geturðu raðað turnunum upp.

Settu fyrst eggaldin sneið á disk, þar ofan á smá sósu, þar ofan á ferska basilikku, svo kúrbít, svo eggaldin, sósu, basilikku osfrv. Endaðu á eggaldinsneið með mozarella osti, settu smá sósu á, leggðu ferska basilikku ofan á og rífðu smá ferskan parmesan yfir. Það er líka gott að mala smá svartan pipar yfir.

Notaðu afganginn af sósunni til að setja á diskana í kringum turnana.

Berðu fram strax á meðan er heitt.