Egg í kápu

Birtist í Aðalréttir, Uppskriftir

Þetta er virkilega skemmtileg leið til að hafa egg í matinn, það verða allir pakksaddir af einni svona sprengju.

Eggin eru mjög góð borin fram með stöppuðum sætum kartöflum eða stappaðri sellerírót eða blómkálsstöppu ásamt fersku grænu salati.

 

Egg í kápu fyrir  4

 • 6 egg
 • 50gr smjör
 • 1 msk olía
 • 3 skallottulaukar, fínsaxaðir
 • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð
 • 4cm biti engiferrót, rifin
 • 1 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað
 • 1 tsk turmerik
 • 1 tsk sinnepsfræ
 • 1 tsk cumin, malað
 • 750 gr kartöflur, flysjaðar í teningum
 • 1 sítróna,  safi
 • 100gr hveiti
 • 150gr brauðmylsna
 • olía til að steikja úr
 • salt og pipar
 • -
 • KRYDDBLANDA
 • 1tsk kóríanderfræ
 • 1 tsk fennelfræ
 • nokkrar chiliflögur
 • 1/2 tsk sinnepsfræ
 • 1/2 tsk cumin fræ
 • 5 svört piparkorn

Undirbúningstími: 15 mínútur

Eldunartími: 60 mínútur

Sjóddu 4 egg í 6 mínútur. Þegar þau eru soðin setur þú þau í skál með ísköldu vatni og lætur liggja í 10 mínútur, flysjar þau svo.

 

Búðu nú til kryddblönduna. Ristaðu allt sem í hana fer á heitri pönnu þar til kryddið fer að poppa og reykja örlítið. Taktu strax af hitanum og láttu kólna í nokkrar mínútur. Fínmalaðu nú kryddið og geymdu til hliðar í skál.

 

Hitaðu smjör og olíu í stórri pönnu. Settu skallottulaukinn, hvítlaukinn, engifer, chilli og turmerik í pönnuna og steiktu í 4-5 mínútur, eða þar til mjúkt og ilmandi. Bættu þá við 1 msk af kryddblöndunni og steiktu í mínútu í viðbót. Settu kartöflurnar í litlum teningum út í og láttu malla með lokið á við vægan hita í 20-30 mínútur. Hrærðu annað slagið eða allt þar til kartöflurnar eru eldaðar og byrjaðar að molna aðeins upp. Kryddaðu með salti og pipar og kreistu safann úr sítrónunni yfir. Láttu kólna.

 

Hitaðu olíu í potti til að djúpsteikja eggin.

Settu 100gr af hveiti á disk. Þeyttu saman 2 egg og settu á annan disk, settu nú brauðmylsnuna á þriðja diskinn. Nú förum við að klæða kartöflurnar í.

Taktu kartöflublönduna þegar hún hefur kólnað nægilega og settu utan um soðnu eggin. Þetta er pínu eins og að hnoða laust saman snjóbolta. Þú vilt að kartöflublandan sé um 1 cm á þykkt utan um eggið. Þegar þú hefur klætt eggið í þá veltir þú því upp úr hveiti, þar næst eggjablöndunni og síðan brauðmylsnu.

 

Djúpsteiktu í 2-3 mínútur eða þar til gullið að utan. Láttu renna af eggjunum á pappír þegar þú tekur þau úr olíunni.

Frábært með blómkálsstöppu eða stöppu úr sætum kartöflum.