Print Friendly, PDF & Email

Donburi er japanska og þýðir skál og er vísað til að skálin sé full af núðlum eða grjónum og kjöti.

Í uppskriftina notaði ég japanskar núðlur, en þú getur notað  hvaða núðlur sem þér finnst bestar.

Uppskriftin er fyrir 2-3.

Donburi núðlur með kjöti

 • 250gr japanskar núðlur
 • olía
 • 1 blað grænkál
 • 3 skallottulaukar
 • 350gr nautavöðvi, þunnt sneiddur
 • 2 tsk hunang
 • 1 msk þurrt sherry
 • 2 msk mirin
 • 1 msk sojasósa
 • 3 egg
 • nokkur strá graslaukur

Undirbúningur: 15 mínútur

Eldunartími: 10 mínútur

Byrjaðu á að sjóða núðlurnar skv. leiðbeiningum á pakkanum.

Skerðu skallottulaukinn og grænkálið í þunnar sneiðar. Sneiddu kjötið eins þunnt og þú getur, 5-7mm er ágætt.

Hitaðu olíu í pönnu og steiktu lauk og grænkál í 2 mínútur. Bættu þá við kjötinu og hunanginu og steiktu í 3 mínútur. Bættu sherry, mirin og sojasósu saman við og hrærðu vel.

Lækkaðu hitann og láttu sjóða þar til nær allur vökvi er farinn eða í um 2-3 mínútur.

Á meðan tekurðu eggin og slærð þeim saman í skál.
Helltu þeim yfir kjötið á pönnunni og settu lok á. Láttu malla í 2 mínútur eða þar til eggin eru til.

Hrærðu vel í pönnunni til að blanda öllu saman og settu svo saxaðan graslauk yfir.

Leggðu núðlur í skál eða á disk og settu kjötblönduna yfir.

Yndislega gott.