Brakandi ferskt Ceviche

Birtist í Aðalréttir, Fiskur, Uppskriftir

Ceviche er fiskur eða sjávarfang, sem er lagað  í sýru úr sítrusávöxtum án þess að önnur eldunaraðferð sé notuð. Sýran umbreytir eggjahvítuefnunum svo fiskurinn verður stinnur og bleikhvítur og þar með ekki lengur hrár.
Ceviche er ákaflega sniðugur snöggur kvöldmatur ef við höfum tíma til að leggja fiskinn í marineringu að morgni og láta hann liggja yfir daginn inni í ísskáp.

Ceviche fyrir 4

 • 700gr hvítur fiskur
 • 8-10 lime
 • 2 sítrónur
 • 1 rauðlaukur eða 3 skallottulaukar
 • handfylli grænar ólífur, grófskornar
 • 2 stilkar sellerí, skorið í bita
 • 3 tómatar, fræhreinsaðir og grófskornir
 • 1 rauð paprika, skorin í 1cm stóra bita
 • 1-2 fersk græn chili, fræhreinsuð og skorin þunnt
 • ferskur kóríander og/eða steinselja, saxað eða rifið
 • salt og grófmalaður svartur pipar

Undirbúningstími: 30mínútur
Eldunartími: 1 1/2 klst eða lengur

Best er að nota hvítan fisk sem ekki er of stór, grófur eða feitur, ég nota þorsk því hann finnst mér bestur.

Byrjið á að skera fiskflökin í þunnar ræmur (um 7-10mm þykkar), leggið þær í rúmgóða skál og kreistið safan úr lime og sítrónunum yfir, safinn þarf að fljóta vel yfir fiskinn og því getur fjöldinn af lime verið breytilegur.

Laukurinn skorinn í hringi og lagður yfir fiskinn, loka skálinni með eldhúsfilmu og setja inn í ísskáp. Þar lagast fiskurinn í 1 1/2 - 2 klst eða lengur, ágætt er að hræra varlega í skálinni eftir fyrstu 30 mínúturnar og passa að sítrussafinn fljóti vel yfir.

Þegar fiskurinn er tilbúinn þá hellum við safanum af honum og setjum bæði fisk og lauk í hreina  skál.

Í skálina setjum við svo ólífur, sellerí, tómata, papriku og chili. Rífum þar næst steinseljuna/kóríanderinn yfir og söltum og piprum eftir smekk.

Hræra öllu varlega saman.

Gott er að borða með þessu tortillaflögur, avocado og bakaðar sætar kartöflur eða bara rúgbrauð.

Ceviche má líka hafa sem forrétt og ætti uppskriftin þá að duga fyrir 6-8.

Ferskt chili má geyma í frysti og það tekur stuttan tíma að þiðna. Þannig geturðu átt góðan lager af rauðu, grænu og appelsínugulu chili til að nota þegar þér hentar án þess að þurfa að treysta á að verslanir selji akkúrat það chili sem þig vantar, þegar þig vantar.