Broccolisúpa

Birtist í Súpa, Uppskriftir

Þessi súpa er græn og væn og afskaplega holl, í hana nota ég súrmjólk, þú getur líka notað hreina jógúrt eða AB mjólk. Athugaðu að nota stilkana af brokkolíinu líka, í þeim er matur og fullt af bragði.

Frábær súpa í miðri viku.

Brokkolísúpa f4

  • 5 msk ólífuolía
  • 2 laukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, marin
  • 1L vatn
  • 2 teningar grænmetiskraftur
  • 5 meðalstórar kartöflur, flysjaðar og í bitum
  • 650 gr brokkolí, skorið niður
  • 1 grein ferskt timian (eða 1/2 tsk þurrkað)
  • 2 dl súrmjólk
  • salt og pipar
Undirbúningur: 10 mínútur Eldunartími: 25 mínútur 

Hitaðu olíuna í stórum potti við meðalhita. Steiktu laukinn í 5 mínútur eða þar til hann er mjúkur. Bættu hvítlauknum við og steiktu í 1 mínútu, hrærðu vel í á meðan.

Bættu nú við brokkolíinu og kartöflubitnunum, hrærðu vel til að laukurinn blandist saman við. Helltu nú vatninu og soðteningnum út í, láttu suðuna koma upp, settu grein af timian út í. Láttu sjóða undir loki í 10 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.

Maukaðu með töfrasprota eða í matvinnsluvél/blandara. Bættu súrmjólkinni saman við og smakkaðu til með salti og pipar. Láttu sjóða í 1-2 mínútur í viðbót.

Dásamleg með smá hrökkbrauði, annaðhvort sér eða muldu yfir súpuna. Það er nauðsynlegt að hafa mismunandi áferð í súpum og því tilvalið að láta ímyndunaraflið ráða þegar þú velur hvað þú setur ofan á súpuna.