Print Friendly, PDF & Email

Hamborgarar eru fljótlegur matur og ég mæli með að útbúa borgarana sjálf/ur eða kaupa þá beint frá býli. Þannig halda þeir lögun sinni og stærð, ekkert fylliefni er notað í deigið, og þú stjórnar hversu stórir og þykkir þeir eru.

Ég mæli líka með að þú gerir brauðið sjálf/ur, Brauðloku uppskriftin okkar er frábær og þú getur notað brauðið í samlokur líka.
Svo er einfalt að útbúa eigin franskar, hér er uppskrift af ofnkartöflum og ef þú vilt hrásalat með þá er uppskrift hér líka.

Borgarar með lauk fyrir 4

 • 4x120gr borgarar
 • 4x borgarabrauð
 • salt og pipar
 • LAUKUR
 • 1 msk smjör
 • 1 laukur, sneiddur þunnt
 • 1 lárviðarlauf
 • 1 grein timian
 • salt +pipar
 • 2 msk þurrt sherry
 • -
 • SÓSA
 • 1 dl majones
 • 2 msk tómatsósa
 • 1/2 tsk cayenne pipar
 • 1 tsk paprikuduft
 • 1 tsk tómatpúrra
 • salt + pipar
 • 2 súrar gúrkur, fínsaxaðar

Undirbúningur: 15 mínútur

Eldunartími: 25 mínútur

Byrjaðu á að steikja laukinn. Settu smjörið í pönnu og settu laukinn í þunnum sneiðum eða hringjum út í. Leggðu lárviðarlaufið ofan á og timian. Láttu steikjast við vægan hita í 20 mínútur undir loki, hrærðu í annað slagið.
Þegar laukurinn fer að brúnast þá skellirðu salti og pipar út í og þurru sherry, hrærðu vel og steiktu í 3-4 mínútur til viðbótar.

Á meðan þú steikir laukinn gerirðu sósuna.

Blandaðu öllum innihaldsefnunum í skál, fínsaxaðu súru gúrkurnar og hrærðu saman við.

Steiktu nú borgarana. Það er best að pipra þá vel fyrir steikingu, en geyma að salta þar til þú ert búin/n að steikja þá til að þú tapir sem minnstum vökva úr þeim.

Þú getur sett sósuna inn í borgaran ofan á kjötið og laukinn þar ofan á. Eða haft sósuna til hliðar.

Verði þér að góðu.