Print Friendly

Í þessum bollum er hálfgerjað deig. Til að búa til hálfgerjað deig þá þurfum við að útbúa grunndeig sem fær svo að gerjast inni í ísskáp yfir nótt eða lengur. Þessar bollur eru eiginlega helgarbollur, því þær eru bestar ef deigið fær nægan tíma til að hefast og alveg æðislegar með kvöldkaffinu eða morgunmatnum.

Þessar bollur má frysta fullbakaðar.

 

 • Grunndeig

 • 400gr heilhveiti
 • 7gr þurrger
 • 300ml vatn

 

Undirbúningur: 15mín + deigið hefast yfir nótt

Blandaðu efnunum fyrir grunndeigið saman í skál og hnoðaðu saman. Þú þarft að bretta upp ermarnar og hnoða í hvorki meira né minna en 10 mínútur. Þegar hnoðinu er lokið seturðu deigið í skál og plast yfir og inn í ísskáp. Þar á grunndeigið að hefast yfir nótt.[/two_third_last]

 

 • Bolludeig

 • 500gr hveiti
 • 75gr rúgmjöl
 • 2 tsk salt
 • 7gr þurrger
 • 140g smjör, bráðið
 • 1 msk hunang
 • 225ml vatn
 • 200gr fíkjur, grófsaxaðar
 • 100gr, döðlur, grófsaxaðar

 

 

Undirbúningur: Grunndeig frá deginum áður + 20mínútur + deigið hefast í 2 klst

Bökunartími: 10-15 mínútur

 

Nú gerirðu bolludeigið. Þú blandar hveiti og rúgmjöli, salti og geri saman í skál. Hrærðu efnunum lauslega saman og gerðu holu í miðjuna.

Bræddu smjörið í potti og blandaðu hunanginu saman við. Láttu kólna örlítið  og helltu svo í holuna í hveitinu ásamt nærri öllu vatninu.

Hnoðaðu þessu saman við grunndeigið og hnoðaðu í 10 mínútur - ekkert svindl, þessar 10 mínútur þarf að nota og hverja sekúndu til þess að deigið verði gott!

Settu svo deigið í skál með stykki yfir á hlýjan stað og láttu deigið hefast í 1 klst.

Þegar deigið hefur hefast þá slærðu það niður og blandar vel döðlunum og fíkjunum í það með því að hnoða vel svo blandist vel saman.

Skiptu deiginu í 20 jafnstóra bita og búðu til bollur. Láttu þær hefast í 1 klst, eða þar til þær eru orðnar helmingi stærri.

Hitaðu ofninn í 200°C.

Raðaðu bollunum á bökunarpappír á plötu og bakaðu í miðjum ofni í 10-15 mínútur eða þar til tilbúnar. Taktu eina bollu upp og bankaðu í botninn á henni, ef þú heyrir gott tómahljóð þá er hún tilbúin.

Látið kólna á bökunargrind.

 

Hálfgerjað deig er ekki ósvipað súrdeigi nema töluvert yngra í dögum talið. Súrdeigsmóðir tekur marga daga að þroskast en hálfgerjað grunndeig um 1/2 til 1 sólarhring og kallast það Biga í ítalskri matargerð eða Poolish í franskri. Auk þess að gefa brauðinu meira bragð og aðra áferð en í hefðbundnum gerbakstri, þá gefur Biga brauðinu lengri endingartíma vegna gerjunarinnar.