Blómkálssúpa

Birtist í Súpa, Uppskriftir

Þessi súpa er matarmikil og góð, hitar kroppinn að innan og gefur fullt af orku. Fullkomin súpa í miðri viku til að hlaða batteríin.

Blómkálssúpa f4

 • 1 stór blómkálshaus
 • 1 epli, saxað
 • 1 laukur, saxaður
 • 1 vorlaukur, saxaður
 • 1 tsk karríduft
 • 4 hvítlauksrif, marin
 • 1 cm engiferrót, rifin
 • 5 msk hvítvín (má sleppa)
 • 700ml vatn
 • 2 kjúklingakraftteningar eða grænmetis
 • 5 dl mjólk
 • 1 msk smjör
 • 1 msk ólífu olía
 • salt og pipar
Undirbúningur: 10 mínútur

Eldunartími: 45 mínútur

Hitaðu ofninn í 160°C. Skerðu blómkálshöfuðið í litla bita og dreifðu vel úr þeim á bökunarpappír á plötu. Dreifðu örlitlu af ólífu olíu yfir, settu smá salt og pipar og hrærðu vel til að krydd og olía blandist vel við blómkálið. Settu í ofninn og ristaðu í 25-30 mínútur, hrærðu vel í blómkálinu einu sinni á þeim tíma, eftir 15 mínútur er alveg ágætt. Þegar blómkálið er ristað þá tekurðu það út úr ofninum og saxar niður.

Hitaðu 1 msk af smjöri í potti ásamt 1 msk af ólífuolíu og steiktu eplabitana, lauk og vorlauk og karríduft þar til laukurinn er mjúkur eða í um 4-5 mínútur. Hrærðu nú hvítvíni út í og náðu öllu kryddi úr botninum á pottinum og hliðunum, ef þú vilt sleppa hvítvíninu þá notarðu 5 msk af vatni. Láttu vínið sjóða nær alveg niður.

Bættu nú hvítlauk og engifer út í og steiktu í hálfa mínútu, settu þá blómkálið, vatnið, kraftteninga og mjólk út í. Láttu suðuna koma upp og láttu sjóða við vægan hita í 10 mínútur.

Notaðu töfrasprota í lok suðutímans til að blanda öllu vel saman í súpunni, þú getur líka fært hana yfir í blandara eða matvinnsluvél. Smakkaðu til með salti og pipar.

Æðislegt að bera fram með smávegis rjóma út í, eða jógúrt. Þú getur líka sett smá kókosmjólk út í súpuna og örlítið af ferskum kóríander.