Bláskel með tómötum

Birtist í Aðalréttir, Fiskur, Uppskriftir

Kræklingur er einnig nefndur bláskel, krákuskel eða kráka.

Kræklingurinn er ljúffengur og fullur af próteini og járni og því bráðhollur og fyrir utan að taka stuttan tíma að útbúa þá er hann alls ekki dýr matur.

Auðvelt er að stækka þessa uppskrift, þú reiknar með 500gr af kræklingi á mann og eykur annað hráefni í hlutfalli við það. Með kræklingnum er nýbakað brauð og smjör til að dýfa í sósuna alveg nauðsynlegt.

Bláskel fyrir 2

  • 3 tómatar, grófsaxaðir
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 hvítlauksrif, saxað
  • 2 skallotulaukar, saxaðir
  • 1 rautt chili, fræhreinsað og saxað
  • 1 glas hvítvín
  • 1 msk tómatpúrra
  • smá sykur
  • 1 kg bláskel
  • nokkur lauf fersk basilikka

Undirbúningur: 5 mínútur

Eldunartími: 10 mínútur

Settu olíuna í stóran pott og hitaðu. Þegar olían er orðin heit þá seturðu hvítlauk, skallottulauk og chili út í og steikir í 3 mínútur þar til mjúkt.

Helltu nú víninu út í ásamt tómötunum, tómatpúrrunni og sykri. Þú getur notað grænmetissoð eða eplasafa í staðinn fyrir vínið, eða bjór /pilsner. Sjóddu í 2 mínútur til að blanda öllu vel saman.

Settu nú bláskelina út í pottinn, hrærðu í og settu lokið þétt á pottinn. Þú þarft að sjóða í 4-5 mínútur og hrista pottinn vel annað slagið, eða þar til kræklingurinn hefur opnað sig.

Ef einhverjar skeljarnar eru lokaðar eftir suðuna, þá hentu þeim. Settu í stóra skál og stráðu grófsaxaðri basilikku yfir. Njóttu vel!

Vissir þú að bláskelin (Mytilus edulis) getur orðið allt að 50 ára gömul ?