Print Friendly, PDF & Email

Þessa fiskisúpu hef ég eldað óteljandi oft, bæði fyrir örfáa svanga munna hér heima og eins fyrir fimmtán glorhungraða göngugarpa uppi á hálendi. Súpan slær alltaf í gegn enda full af dásamlegu bragði - og mann langar alltaf í eina skeið til.

Súpan er fljótleg og einföld, í hana notarðu þann fisk sem þér finnst bestur, mér finnst gott að blanda fiskitegundum í hana og hafa bæði hvítan og bleikan fisk.

Í súpuna nota ég óáfengan eplasíder, sem gefur ótrúlega gott bragð - ekki sleppa því eða nota hvítvín í staðinn, þetta skiptir miklu máli til að ná fram rétta bragðinu af súpunni sem gefur henni sérstöðu.

Fiskisúpa fyrir 4

 • 2 laukar, fínsaxaðir
 • 1 púrrulaukur, fínsaxaður
 • 2 gulrætur, fínsaxaðar
 • ólífu olía
 • 1-2 tsk chiliflögur
 • 1 lárviðarlauf
 • 1 grein timian eða 1/2 tsk þurrkað
 • 1 dós hakkaðir niðursoðnir tómatar
 • 3 dl eplasíder
 • 2 stórar kartöflur, flysjaðar í bitum
 • 3 dl vatn
 • 500 gr fiskur, blandaður í bitum
 • 2 dl rjómi
 • salt og pipar
 • handfylli steinselja

Undirbúningur: 10 mínútur

Suðutími: 20 mínútur

Settu olíu í stóran pott og steiktu lauk, púrrulauk og gulrót við meðalhita þar til laukurinn er orðinn glær eða í um 5 mínútur.

Bættu nú chiliflögunum, timian og lárviðarlaufi út í, steiktu í hálfa mínútu og hrærðu vel í á meðan.

Helltu nú eplasídernum í pottinn og tómötunum og hrærðu vel, láttu suðuna koma upp og bættu þá kartöflubitunum út í. Settu lok á pottinn og láttu sjóða í  5-7 mínútur.

Þá er kominn tími á að setja vatn í pottinn og klára suðuna á kartöflunum, láttu sjóða í um 5 mínútur í viðbót.

Nú er komið að því að setja fiskinn í súpuna. Skerðu hann í 2 cm sneiðar og settu í súpuna, láttu sjóða í 2-3 mínútur, ekki lengur.

Hrærðu rjómanum saman við og láttu suðuna koma upp í augnablik. Slökktu undir pottinum og smakkaðu til með salti og pipar. Stráðu saxaðri steinselju yfir.

Berðu fram með nýbökuðu brauði.