Bauna samósur

Birtist í Aðalréttir, Grænmeti, Uppskriftir

Samósur 12-15stk

 

  • DEIG
  • 225gr hveiti eða spelt
  • 1 tsk salt
  • 1 msk olía
  • 5 msk vatn

 

 • FYLLING
 • 2msk olía
 • 1 tsk karríduft
 • 1 tsk garam masala
 • 1/2 tsk cumin, malað
 • 1/2 tsk turmerik
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
 • 3cm engiferrót, rifin
 • 1 lítið grænt chili, fræhreinsað og saxað
 • 1 gulrót, fínsöxuð
 • 1 dós baunir (t.d. kjúklinga-, linsu- eða smjörbaunir)
 • 2 dl vatn
 • sítrónusafi
Undirbúningur: 40 mínútur

Steikingartími: 25 mínútur

Byrjaðu á að gera deigið. Blandaðu hveiti og salti saman í skál og bættu olíu og vatni við, hnoðaðu saman svo úr verði teygjanlegt deig. Þú gætir þurft að hnoða í 5-10 mínútur. Þegar deigið er tilbúið þá seturðu það í plastpoka og inn í ísskáp og kælir á meðan þú útbýrð fyllinguna.

 

Nú gerirðu fyllinguna, byrjaðu á að skera allt sem þarf að skera. Hitaðu olíu í pönnu, steiktu karríduft, garam masala, cumin og turmerik í 30 sekúndur eða þar til fer að ilma. Bættu þau við lauknum, hvítlauk, gulrót, engifer og chili og steiktu þar til laukurinn mýkist og kryddin fylla allt af dásemdarlykt, í 4-5 mínútur. Bættu nú við baununum (mundu að hreinsa þær og sía), vatni og um 1/2 tsk af salti. Hrærðu varlega í og láttu sjóða þar til nær allt vatnið hefur soðið niður og eftir stendur þykk sósa. Smakkaðu til með sítrónusafa og settu til hliðar á meðan þú fletur út deigið.

 

Það er ágætt að skoða hvernig þú býrð til samósur, hér eru ágætis leiðbeiningar (sjá neðst á síðunni).

Taktu deigið og skiptu því í 6-7 hluta. Búðu til kringlóttar kökur úr hverjum hluta, skiptu hverri kringlóttri köku í tvennt og búðu til kramarhús sem þú fyllir með fyllingunni. Þú lokar svo opinu með því að strjúka smá vatni á deigið og kreista saman, eða notar gaffal til að ýta börmunum saman. Finndu út hvaða leið þér finnst þægilegust til að gera samósurnar. Megin hugsunin er að þetta verði umslög með fyllingu, alveg lokuð til að þú getir djúpsteikt samósurnar.

Hitaðu olíu í potti, nægilega mikla til að þú getir djúpsteikt samósurnar, um 1-2 cm djúpt. Þegar olían er orðin nægilega heit þá steikirðu samósurnar þar til þær eru gullinbrúnar. Láttu olíuna renna af þeim á eldhúspappír og stingdu þeim inn í 140°C heitan ofn til að halda þeim heitum á meðan þú steikir hinar.