IMG_4256
Print Friendly

Það er svo ótrúlega skemmtilegt að borða Bao bollur, þær geta verið með kjötfyllingu, grænmetisfyllingu, ávaxtafyllingu, súrri, sætri eða saltri.
Hér er uppskrift af einföldum grænmetisbollum með fyllingu úr allskonar grænmeti, þú þarft bara að taka til í grænmetisskúffunni í ísskápnum. Fullkomnar sem léttur kvöldmatur með smá núðlum og grænmeti, eða með góðri plómusósu.

Grænmetis Bao bollur fyrir 4

 • DEIG
 • 420gr hveiti
 • 2 dl vatn
 • 1 msk agave sýróp
 • 2 tsk þurrger
 • 2 tsk olía
 • FYLLING
 • 150gr hvítkál/gulrætur/broccoli, fínsaxað
 • 2 skallottulaukar, fínsaxaðir
 • 1/2 paprika, fínsöxuð
 • 1 rautt chili, frænhreinsað og fínsaxað
 • 2cm engiferrót, rifin
 • 2 msk HoiSin eða Ostrusósa
 • 1 tsk agave sýróp
 • 2 tsk olía

Undirbúningur: 10 mínútur

Hefun: 80 mínútur alls

Eldunartími: 20 mínútur

Byrjaðu á að gera deigið.

Hitaðu vatnið þannig að verði volgt. Settu sýrópið og ger út í og hrærðu vel. Láttu standa í 10 mínútur, eða þar til fer að freyða og gerinn lifnar við.

Helltu út í hveitið ásamt olíunni og hnoðaðu vel saman. Þú gætir þurft meira eða minna hveiti, það er best að byrja á að setja bara helminginn af hveitinu og bæta við smátt og smátt þar til þú ert komin/n með mjúkt og gott deig.

Settu í stóra skál og láttu hefast í klukkustund eða þar til deigið er tvöfalt að stærð.
Gerðu fyllinguna á meðan.

Hitaðu olíu og steiktu laukinn og chili í 3-4 mínútur. Bættu við paprikunni og engifer og steiktu í 3 mínútur.

Bættu nú grænmetinu út í og steiktu í 4-5 minútur í viðbót. Hrærðu vel í á meðan. Helltu nú sósunni og sýrópinu út í og steiktu í 2-3 mínútur í viðbót eða þar til fer að blandast allt vel saman.

Láttu kólna.

Þegar kemur að því að gera bollurnar þá tekurðu deigið og skiptir því í 10-12 jafnstórar kúlur. Hverja kúlu þarf að fletja út í pönnuköku.

Í miðjuna á pönnukökunni seturðu skeið af fyllingu, tekur svo brúnirnar saman á pönnukökunni og snýrð upp á, býrð til hálfgeran poka.

Settu hverja bollu á lítinn ferhyrning af bökunarpappír.

Láttu bollurnar hefast aftur í 10-15 mínútur.

Hitaðu vatn í stórum potti eða pönnu, settu bollurnar í sigti eða bambusgufusuðugrind og gufusjóddu þær í 10-12 mínútur.

Bollurnar eru góðar bæði heitar eða kaldar og gott að bera fram með þeim núðlur, allskyns sósur; Hoisin, Ostrusósu, Chilisósu, sojasósu o.s.frv.