Appelsínu ís

Birtist í Sætindi, Uppskriftir

Þessi ís er ótrúlega einfaldur en svakalega ferskur og góður. Og enginn rjómi eða egg, við notum bara súrmjólk eða AB mjólk og smávegis kókosmjólk fyrir bragð.

Þú getur gert ís þó þú eigir ekki ísvél; það þarf bara nokkrar ferðir í frystinn og góðan gaffal ásamt handafli, skoðaðu leiðbeiningarnar hér að neðan.

Appelsínu Ís 1L

  • 2 1/2 dl vatn
  • 100gr sykur
  • 2 appelsínur (safi og börkur)
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • 5dl súrmjólk
  • 1 dl kókosmjólk ( má sleppa)

Settu vatn og sykur í pott. Rífðu börkinn af báðum appelsínunum út í pottinn og kreistu svo allan safann úr báðum appelsínunum í pottinn. Láttu suðuna rétt koma upp og slökktu undir pottinum eftir 1 mínútu, eða þegar sykurinn hefur samlagast blöndunni. Láttu kólna vel.

Hrærðu appelsínublöndunni við súrmjólkina og settu í ílát og láttu kólna vel.

Ef þú átt ísvél þá býrðu til blönduna og kælir mjög vel áður en þú setur í ísvélina, fylgdu leiðbeiningunum með vélinni.

Ef þú átt ekki ísvél, þá seturðu blönduna í skál í frystinn og ferð og hrærir upp í blöndunni með gaffli á 30 mínútna fresti í 4-5 skipti, það ætti að taka um 4 klst fyrir ísinn að frjósa nægilega til að hægt sé að bera hann fram. Þú ert að hræra til að koma í veg fyrir kristalla í ísnum. Þessi ís er þó hálfgerður sherbet þar sem við notum ekki rjóma eða egg og því eðlilegt að hann verði ekki mjúkur eins og rjómaís.