Hvað er Zinfandel?

Zinfandel eru þrúgur sem notaðar eru til víngerðar. Zinfandel er frábær rauðvínsþrúga, sérstaklega í Kaliforníu þar sem hún er á heimavelli, enda þótt þetta sé nánast sama þrúgan og Primitivo frá Puglia. Þrúgan gefur af sér líflegt og ávaxtaríkt vín sem best er að drekka ungt, tveggja til þriggja ára, en getur gefið af sér þétt vín í háum gæðaflokki sem þarfnast langrar þroskunar og getur vel bragðast eins og frábært Bordeaux-vín eftir 50 ára þroskun enda þótt 10 ár séu yfirleitt hámarkið nema í undantekningartilfellum. Vínviðurinn þrífst best í þurru loftslagi og nær sínum besta árangri á kaldari svæðum eins og í norðurhluta Sonoma. Bragðið er af brómberjum, kryddi og nýmöluðum svörtum pipar.

Hvenær eru vínber tínd?

Í byrjun júní blómstrar vínviðurinn. Algengast er að uppskeran hefjist u.þ.b. 100 dögum síðar. Í ágúst fara dökk vínber að taka lit. Berið hefur náð fullri stærð en er ekki fullþroskað. Sykurmagn eykst en sýran minnkar. Víða hefst uppskeran í september. Það fer þó eftir veðráttu sumarsins. Það ákvarðast oftast af sykurinnihaldi berjanna hvenær uppskeran hefst. Vínberjaklösum er safnað í litlar körfur. Litlar körfur taka minna sem gerir það að verkum að minni þungi myndast og minni hætta er á ótímabærri gerjun neðstu berjanna. Meira sykurinnihald berja þýðir meiri vínandi og það þýðir hærra verð.

Photo credit: Fast Forward Event Productions / Foter.com / CC BY