Verði þér að góðu

Birtist í Allskonar, Góð ráð, Hugmyndir

 

Langflest okkar eru vön því að hver máltíð hefjist og endi með þessari fallegu ósk: Verði þér að góðu.

Í hraða nútímans gleymum við oft merkingu þessara orða, gleymum að taka okkur tíma til að njóta máltíðarinnar. Allt of oft borðum við skyndimat, sækjum okkur ekki einu sinni disk til að borða af, hvað þá að við setjumst niður.

Hvernig getum við verið viss um að maturinn sem við borðum verði okkur að góðu?

 

Einfaldaðu það sem þú borðar. Borðaðu alvöru mat og í hófi, reyndu að borða lítið unna matvöru og horfðu á hversu langa vegalengd varan hefur ferðast til að koma til þín. Reynum að versla íslenskar vörur sem mest og beint frá býli þegar hægt er. Eldaðu sjálf/ur og vertu með á hreinu hvað fer í matinn þinn og ofan í þig.

Fjölbreytni. Borðaðu sem fjölbreyttasta fæðu, prófaðu eitthvað nýtt. Við eigum til að vera vanaföst þegar kemur að mat, við meira að segja viljum sitja í sama sætinu við matarborðið. Ef þú ert vanaföst/fastur þá er sniðugt að setja sér að prófa eitthvað nýtt 1 kvöld í viku - og standa við það.

Fylgstu með. Flýtirðu þér að borða? Spurðu þig hvað þú hugsar á meðan þú borðar. Tekurðu eftir lykt og bragði eða áferðinni í matnum? Hægðu á þér og andaðu djúpt á milli bita, borðaðu líka með augunum, láttu eins og hver máltíð sé glæný upplifun.

Þakkaðu fyrir. Hugsaðu um hvaðan maturinn kemur, þakkaðu þeim sem bjó hann til. Vertu þakklát/ur fyrir að þú getur borðað það sem þú borðar.

 

Verði þér að góðu.